16 ára kjósi til sveitarstjórna

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn frá öllum þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi að undanskildum Framsóknarflokknum hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna þess efnis að kosningaaldur verði færður niður í 16 ár. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Fram kemur í greinargerð að frumvarpið sé lagt fram til „að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Verði frumvarpið að lögum munu aldursmörk kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningunum 2018 verða við 16 ára aldur í stað 18 ára eins og nú er. Munu þá nærri því 9.000 manns fá tækifæri til að hafa á kjördegi áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi sem ekki njóta þessara grundvallarréttinda lýðræðisins að óbreyttum lögum.“

Frumvörp um lækkun kosningaaldurs hafa áður verið lögð fram en ekki náð fram að ganga. Þar hefur hins vegar verið lagt til að kosningaaldur væri lækkaður almennt og þar með einnig til alþingiskosninga en til þess þarf hins vegar stjórnarskrárbreytingu. Frumvarpið sem nú er lagt fram kerfst aðeins lagabreytingar.

„Verði frumvarp þetta samþykkt leggja flutningsmenn á það áherslu eftir sem áður að stefnt sé að því að stíga frekari skref í sömu átt á næstu misserum. Hvort sem það er gert sem hluti af vinnu við endurskoðun stjórnarskrár og kosningalaga, sem boðuð hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili, eða með sjálfstæðu þingmáli, þá er mikilvægt að ná samstöðu um þær breytingar fyrir næstu alþingiskosningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert