Leiðir smátt og smátt að lokast

Veðrið er mjög slæmt víða á landinu eins og sést …
Veðrið er mjög slæmt víða á landinu eins og sést á þessari mynd sem ljósmyndari mbl.is tók fyrir skömmu. mbl.is/Rax

Ferðafólki sem hefur lent í vandræðum á Suðurlandi hefur verið komið í skjól á nærliggjandi hótelum og Vegagerðin er búin að loka fjölmörgum leiðum á landinu enda ekki hundi út sigandi. Ekkert er flogið innanlands og útlit fyrir tafir á millilandaflugi þar sem Reykjanesbrautinni hefur verið lokað.

52 farþegar langferðabíls sem fór útaf veginum skammt frá Vík í Mýrdal og bifreiðar valt skammt frá Skógum undir Eyjafjöllum í morgun hefur verið komið á hótel en fjórir voru í bílnum sem valt. Engin slys urðu á fólki að sögn varðstjóra í lögreglunni á Suðurlandi, Frímanns Baldurssonar.

Búið er að loka veginum um Sandskeið, Hellisheiði, Þrengsli og eins Suðurlandsvegi á milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal. Frímann segir að þrátt fyrir að Suðurstrandarvegur sé opinn þá er ekkert ferðaveður þar. Ekki sé heldur hægt að komast til höfuðborgarinnar þá leið þar sem Grindavíkurvegur er lokaður.

Vegagerðin birtir upplýsingar um færð á vef sínum.
Vegagerðin birtir upplýsingar um færð á vef sínum.

Töluvert annríki hefur verið hjá lögreglunni að aðstoða fólk sem hefur lent í vandræðum og eitthvað um minniháttar óhöpp á Hellisheiði og víðar áður en veginum var lokað.

Um 200 manns í fjöldahjálparstöð á Kjalarnesi

Rétt fyrir kl. 9 í morgun var Rauði krossinn beðinn um að opna fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla á Kjalarnesi þar sem veður fór versnandi. Ferðamenn voru þegar komnir í vanda. Um 200 manns eru staddir í fjöldahjálparstöðinni og hefur aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins verið virkjuð til þess að stýra aðgerðum.

Fyrsta fólkið sem kom var úr tveimur rútuslysum, en síðan hefur fjölgað mikið á svæðinu og er þó nokkuð um ferðamenn á bílaleigubílum.

Brýnasta verkefnið núna er að útvega mat fyrir allan þennan fjölda og koma honum í fjöldahjálparstöðina, enda gengur nokkuð hratt á birgðir af orkustöngum og öðru. Vonir standa til að það náist á næsta hálftímanum, samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum.

Tafir á millilandaflugi og flugi aflýst

Einhverjar tafir verða á millilandaflugi síðdegis um Keflavíkurflugvöll en Reykjanesbrautinni verður lokað frá hádegi til klukkan 17. WOW air hefur aflýst nokkrum flugferðum til vesturheims og eins er flugvél sem átti að fara í loftið klukkan 6.50 til Edinborgar nú sögð fara í loftið klukkan 18:30.

Ekkert er hægt að fljúga innanlands og ekki útlit fyrir að svo verði síðar í dag.

Upplýsingar frá Vegagerðinni:

09:00 – 18.00 Eyjaföll -LOKAÐ

11:00 – 18.00 Hellisheiði. -LOKAÐ

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. - LOKAÐ

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut og Grindarvíkurvegur- LOKAÐ

12:00 – 18:00 Hafnarfjall.

09:00 – 18:00 Kjalarnes - LOKAÐ

13:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekku.

13:00 Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði. - LOKAÐ

Fjarðarheiði, Oddskarð. - LOKAÐ

Af vef Veðurstofu Íslands:

„Suðaustan stormur eða rok (20-28 m/s) gengur norðaustur yfir landið í dag með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en mikilli úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum þegar líður á daginn. Veðrið nær hámarki suðvestan til upp úr hádegi, en norðaustan til undir kvöld. Veðrið fer að ganga niður suðvestanlands milli kl 3 og 5 í dag, en norðaustantil um miðnætti. Einnig má búast má við mjög hvössum vindhviðum við fjöll víðast hvar á landinu. Á hálendinu má búast við óveðri með blindhríð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert