Stangast ummæli ráðherra á við siðareglur?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefur hæstvirtur forseti tekið þessi mál upp við hæstvirtan ráðherra? Ráðherrar sitja í umboði Alþingis og það er sérkennilegt að tala um ákvarðanir Alþingis með þeim hætti sem ráðherra gerði í fjölmiðlum í gær,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Alþingi í dag und­ir dag­skrárliðnum fund­ar­stjórn for­seta.

Vísaði hún þar til ummæla Bene­dikts Jó­hann­es­son­ar fjár­mála- og efna­hags­ráðherra sem hann lét falla á Bylgjunni í gærmorgun. Ráðherra sagði að samþykkt Alþing­is á sam­göngu­áætlun í októ­ber síðastliðnum hefði verið ófjár­mögnuð og þannig skapað rang­ar vænt­ing­ar. Þetta hefði verið nánast siðlaust af síðasta þingi.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Benedikt og kröfðust þess að forseti þingsins ræddi við ráðherra og léti hann gera grein fyrir orðum sínum.

Ásta Guðrún Helgadóttir pírati spurði hvort ummæli ráðherra stönguðust ekki á við siðareglur þingmanna. Þar segir að þingmenn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess og sýna Alþingi virðingu. „Hvernig rímar þetta við orð fjármálaráðherra þegar hann kallaði Alþingi siðlaust? Er þetta við hæfi?“ spurði Ásta Guðrún.

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Vanur að tala við sjálfan mig

Kolbeinn Óttarsson Proppé úr VG sagðist vera vanur því að tala við sjálfan sig. „Ég bý einn, á hund og er því vanur að mér sé ekki svarað. Ég er hins vegar svekktur þegar forseti svarar því ekki hvort forseti hafi rætt við fjármálaráðherra um það að hann geri grein fyrir orðum sínum,“ sagði Kolbeinn.

Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, sagðist hafa rætt við fjármálaráðherra og benti þingmönnum á að hann verði til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert