Tvítugar skvísur keppa í rallý

Kolbrún Vignisdóttir og Hanna Rún Ragnarsdóttir eru fyrsta kvenparið sem …
Kolbrún Vignisdóttir og Hanna Rún Ragnarsdóttir eru fyrsta kvenparið sem tekur þátt í rallakstri í sumar. mbl.is/Eggert

„Það er hraðinn,“ segir Hanna Rún Ragnarsdóttir spurð hvað heilli við rallý en hún keppir í fyrsta skipti sem ökumaður í rallýkeppni í sumar með vinkonu sína Kolbrúnu Vignisdóttur sér við hlið sem verður aðstoðarökumaður. Þær taka þátt í keppni í rallakstri og keppa í flokknum 4×4 non turbo á Subaru Impreza. Liðið nefnist Prama og er óhætt að segja að það sé skipað kraftmiklum og hressum stelpum sem eru óhræddar við að prufa eitthvað nýtt. 

Menntaður bílamálari með bíladellu 

Þær eru báðar heillaðar af mótorsporti og öllu sem því tengist. Hanna Rún er enginn nýgræðingur í sportinu þrátt fyrir vera 23 ára gömul. Hún var í fyrsta skipti aðstoðarökumaður Baldurs Arnars Hlöðverssonar í haustrallinu árið 2014 og höfnuðu þau í 2. sæti. Árið 2015 var hún Íslandsmeistari aðstoðarökumanna. Áður hafði hún verið í þjónustuliði en öll lið sem taka þátt í rallkeppni þurfa að hafa slíkt. 

Hanna Rún er bílamálari að mennt og starfar sem slíkur. Áhugi hennar á bílum kviknaði í æsku þegar hún var að vasast í kringum afa sinn sem gerði við bíla í bílskúrnum. Þegar kom að því að velja nám var það annaðhvort bifvélavirkjun eða bílamálun sem kom til greina. „Mér finnst þessi vinna æðisleg,“ segir Hanna Rún sem er greinilega á réttri hillu. Henni líkar vel að vera eina konan á vinnustaðnum og segist ekki mikið velta því fyrir sér. 

Hanna Rún Ragnarsdóttir, ökumaður í liðinu Prama.
Hanna Rún Ragnarsdóttir, ökumaður í liðinu Prama. Ljósmynd/úr einkasafni

Markaðsstjórinn sestur í sætið

Kolbrún er að stíga sín fyrstu skref sem keppandi í akursíþróttinni. Hún hefur fylgst náið með á hliðarlínunni en vinahópur þeirra hefur mikinn áhuga á bílum og akstursíþróttum. Kolbrún var til að mynda markaðsstjóri Hönnu Rúnar á fyrri mótum og fólst sú vinna meðal annars í að safna styrkjum og fleira sem tengist því en kostnaðurinn við að taka þátt í rallý-keppni er talsverður. Þær segja að vel hafi gengið að fá styrki fram að þessu.  

Hugmyndin um að þær myndu stofna lið og keppa saman kviknaði í vetur þegar þær voru að leika sér að keyra á gömlum Subaru-bíl í snjó. Eftir það var ekki aftur snúið. 

Fyrirmyndirnar mikilvægar

Þær segjast bara hafa fengið jákvæð viðbrögð við þátttökunni og ekki margir sem kippa sér upp við að liðið sé skipað tveimur stelpum. „Ég held að fólk hafi þá ímynd af rallý að í því séu bara gamlir sveittir karlar sem keyra á malarvegum,“ segir Hanna Rún spurð hvers vegna fleiri strákar eru í mótorsportinu en konur. „Fólk sér ekki alveg fyrir sér tvítugar skvísur á rallý-bíl,“ bætir Kolbrún við.

„Það eru samt fullt af stelpum sem hafa mikinn áhuga á að prófa að vera ökumenn. Það þýðir ekki að vera smeykur við að prófa heldur bara kýla á þetta,“ segir Hanna Rún og hlær. Hún tekur fram að það séu samt nokkrar konur í sportinu sem eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir stelpur sem vilja prófa. Í því samhengi nefnir hún Ástu Sigurðardóttur aðstoðarökumann sem er margfaldur Íslandsmeistari í rallakstri með bróður sínum Daníel. Þess má geta að á þessu ári hefur Akursíþróttasamband Íslands hvatt konur til að taka þátt en kvenmenn hafa verið í miklum minnihluta í íþróttinni. 

Kolbrún Vignisdóttir aðstoðarökumaður.
Kolbrún Vignisdóttir aðstoðarökumaður. Ljósmynd/úr einkasafni

Mótorsportið er eins og stór fjölskylda 

Þær segja báðar að andinn í mótorsportinu sé mjög góður og allir boðnir og búnir að hjálpast að. Það sé ekki síður heillandi við þetta sport. „Þetta er eins og stór fjölskylda og allir tilbúnir að hjálpa ef eitthvað er,“ segir Kolbrún. 

Til að ná árangri í rallý þarf að vera góð samvinna á milli parsins. Ökumaðurinn þarf að halda góðri einbeitingu og aðstoðarökumaðurinn þarf að vera nákvæmur því hann gefur meðal annars upplýsingar um hvað er fram undan á brautinni eins og beygjur og hvar aðrir bílar eru. „Það er mikilvægast að halda einbeitingu. Um leið og hjálmurinn er kominn á þarf maður að hafa augun á veginum og láta ekkert trufla sig,“ segir Hanna Rún og bætir við: „og svo þarf ég að heyra vel í þér,“ segir hún og brosir til vinkonu sinnar.   

Stefna að því að klára keppnina 

Rallkeppnin samanstendur af fimm mótum yfir sumartímann og það fyrsta er í byrjun júní. „Markmiðið er að klára keppnina og hafa bílinn heilann,“ segja þær nánast í kór. „Svo er það bara að setja bensíngjöfina í botn og hafa gaman að þessu og safna í reynslubankann,“ segir Hanna Rún og hlær sínum smitandi hlátri. 

Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta skrefið hjá þeim stöllum saman á brautinni er draumurinn að taka þátt í rallkeppni erlendis. „Mig langar það mjög mikið. Það er kostnaðarsamt og rætist vonandi einn daginn,“ segi Hanna Rún en bætir við að fyrst um sinn ætli hún að fara út til Bretlands og horfa á rallkeppni. 

Hægt er að fylgjast með liðinu Prama á Snapchat undir pramarally og á facebook PRAMA Team Rally.

Uppfært kl. 12:10:

Hanna Rún og Kolbrún eru ekki fyrsta kvenparið sem tekur þátt í rallakstri á Íslandi eins og fyrst var greint frá. Árið 1975 tók Guðrún Reynisdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir þátt í rallý samkvæmt dagblaðinu Vísi 22. maí árið 1975. Yfirskrift fréttarinnar var „54 ára kona í rallý!“  

Stelpurnar við bílinn sem þær munu þeysast á í keppninni.
Stelpurnar við bílinn sem þær munu þeysast á í keppninni. Ljósmynd/úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert