Vara við hvassviðri og stormi

Vestlæg átt 5-10 m/s verður á landinu frameftir morgni. Víða er skýjað og dálítil él eru að stinga sér niður hér og þar, einkum á Norður- og Austurlandi. Þegar kemur fram á daginn lægir vind og rofar til, „þannig að segja má að hinn ljúfasti vetrardagur sé í vændum,“ að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Frost verður á bilinu 0 til 8 stig. 

Eftir daginn í dag skiptir veðrið um gír ef svo má segja. Vaxandi sunnanátt verður í nótt með snjókomu eða slyddu, 15-23 m/s á morgun og hlýnar með talsverðri rigningu.  

Frá fimmtudegi til laugardags er útlit fyrir að lengst af verði hvass vindur á landinu og jafnvel stormur. Skiptist þá á sunnanátt með rigningu og hlýindum annars vegar og hins vegar svalari suðvestanátt með éljum eða skúrum. Eins og svo oft í þessum vindáttum verður væntanlega úrkomulítið norðaustan- og austanlands, en þar gæti hiti farið vel yfir 10 stigin í hnjúkaþey á laugardag.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert