Lægri virðisaukaskatt á túrtappa

Túrtappar, dömubindi og aðrar slíkar hreinlætisvörur fyrir konur eru með …
Túrtappar, dömubindi og aðrar slíkar hreinlætisvörur fyrir konur eru með virðisaukaskatti. Mynd/Wikipedia

Lagt er til að einnota og margnota tíðavörur, þar með talin dömubindi, tíðatappar og álfabikarar, ásamt öllum tegundum getnaðarvarna, falli í lægra þrep virðisaukaskatts í frumvarpi til laga um breytingu á virðisaukaskatti sem var lagt fram á Alþingi í dag.

Í dag er 24% virðis­auka­skatt­ur á dömu­bindi og túr­tappa á Íslandi.  

Enginn kostnaður er sagður vera vegna breytinganna. Aftur á móti er áætlað tekjutap ríkisins vegna virðisaukaskatts ríflega 40 milljónir króna á ári. 

Síðustu ár hafa margir bent á skattlagningu legsins með umræddum skatti á þessar vörur, jafnt hér á landi sem erlendis. 

„Markmið frumvarpsins er [að] stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notenda mismunandi forma getnaðarvarna,“ segir í frumvarpinu. 

Flutningsmaður frumvarpsins var Oktavía Hrund Jónsdóttir, varaþingmaður Pírata, sem tók sæti nýverið í for­föll­um Smára McCart­hy. Á síðasta þingi lögðu Róbert Marshall og fleiri fram svipað frumvarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert