Vill bæta aðstöðu fyrirtækisins

Frá fundi bæjarstjórnar Akraness í dag.
Frá fundi bæjarstjórnar Akraness í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Bæjarstjórn Akraness lýsir yfir eindregnum vilja til að ganga frá samkomulagi við HB Granda og Faxaflóahafnir um gerð landfyllingar og nauðsynlegar endurbætur á hafnaraðstöðu við Akraneshöfn til að unnt sé að koma til framkvæmda áformum fyrirtækisins frá 2007 og 2014 um uppbyggingu á Akranesi,“ segir í viljayfirlýsingu sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akraness sem fram fór í dag en hún var samþykkt einróma.

Fram kemur að bæjarstjórn Akraness sé reiðubúin að ná samkomulagi við HB Granda og Faxaflóahafnir um eftirtalin atriði:

• Landfyllingu sem verði u.þ.b. 40.000 m2 ásamt tilheyrandi sjóvörn.
• Á landfyllingunni verða skipulagðar lóðir fyrir starfsemi HB Granda m.a. fyrir fiskvinnsluhús, frystigeymslu og uppsjávarvinnsluhús.
• Akraneskaupstaður annast nauðsynlegt skipulag svæðisins, aðalskipulag og deiliskipulag. Umhverfisfyrirspurn, og ef nauðsyn krefur umhverfismati, verði lokið og unnið verði eftir markmiðum HB Granda um samfélagslega ábyrgð.
• HB Grandi reisi fiskivinnsluhús, frystigeymslu og uppsjávarvinnsluhús.
• Orkuveita Reykjavíkur ljúki við tengingar og lagningu veitukerfa vatns, hitaveitu, rafmagns og fráveitu.

Bæjarstjórn Akraness hefur lagt fram fjórar tillögur um útfærslur í þessum efnum. Fram kemur í yfirlýsingunni að sveitarfélagið sé nú sem fyrr reiðubúið „að vinna ötullega að lausnum sem tryggja munu starfsemi þessa öfluga fyrirtækis á Akranesi og nauðsynlega framþróun þess hvort sem litið er til landrýmis vegna landvinnslu eða hafnaraðstöðu.“

Farið er þess á leit við HB Granda að fyrirtækið fresti um mánuð áformum um lokun botnfiskvinnslu á Akranesi og endurskoði áform sín í ljósi þessa. „Með þessu gefst bæjarstjóra og forstjóra HB Granda svigrúm til að skoða til hlítar aðra þá kosti sem eru í stöðunni, bæjarfélaginu og fyrirtækinu til heilla. Samofin saga HB Granda og Akraneskaupstaðar er of mikilvæg og verðmæt til að henni verði kollvarpað í einu vetfangi. Því ber aðilum skylda til að leita allra leiða til farsællar lausnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert