Öskraði á börn og barði á rúður Actavis

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem handtekinn var 9. febrúar vegna gruns um að hafa stolið vörum úr verslun Hagkaupa við Litlatún, að söluverðmæti 3.284 krónur. Athygli vekur að maðurinn er auk þess grunaður um fjölda brota á undanförnum vikum og mánuðum.

Þannig er hann talinn hafa ráðist á annan mann í Mjóddinni 20. ágúst, með þeim afleiðingum að maðurinn rifbeinsbrotnaði og hlaut svokallað loftbrjóst á vinstra lunga, svo hann þurfti bráðainnlögn á brjóstholsskurðdeild fimm dögum síðar.

Níu dögum síðar, eða 29. ágúst, á maðurinn að hafa veist að öðrum manni og kýlt hann í andlitið, þannig að hann hlaut skurð á vinstri kinn, eymsli í nefi og rispu og roða undir vinstra auga.

Þá er hann grunaður um fjóra mismunandi þjófnaði í verslunum í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ í október, en í eitt þeirra skipta mun hann hafa veist að öryggisverði Fjarðarkaupa og veitt honum yfirborðsáverka á nef, vör, munnhol og á öðrum hlutum höfuðs, að því er fram kemur í staðfestum úrskurði héraðsdóms.

Læsti sig inni á salerni

Maðurinn er auk þess grunaður um að hafa stolið vörum í verslunum í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ, alls fjórum sinnum frá nóvember og fram í febrúar á þessu ári.

Á nýársdag er hann sagður hafa ruðst inn í hjólageymslu og neitað að fara þaðan, er íbúi skoraði á hann að gera það, og hið sama var uppi á teningnum dagana 10., 11. og 22. janúar, nema þá gerði hann sig ýmist heimakominn í þvottahúsi eða á stigagöngum.

Til viðbótar er maðurinn sakaður um að hafa verið ellefu sinnum ölvaður og með óspektir á almannafæri frá ágúst og fram í janúarmánuð. Þannig mun hann meðal annars hafa öskrað á börn við Hofsstaðaskóla, barið á rúður fyrirtækisins Actavis í Hafnarfirði og læst sig inni á salerni í verslunarmiðstöðinni Firði.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. maí næstkomandi, á grundvelli þess að ætla megi að brotastarfsemi hans haldi áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert