Stjórn United Silicon fundar í dag

Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Stjórnarfundur hefst hjá United Silicon fyrir hádegi þar sem rætt verður um næstu skref hjá fyrirtækinu. Frestur sem Umhverfisstofnun veitti fyrirtækinu til að gera athugasemdir við fyrirætlanir stofnunarinnar um að stöðva starfsemi þess rennur út á miðnætti.

Norskir sérfræðingar sem hafa verið United Silicon innan handar vegna þeirra vandamála sem steðja að fyrirtækinu munu mæta á stjórnarfundinn og greina frá niðurstöðum sínum, að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon.

Í framhaldinu verður metið hvernig brugðist verður við niðurstöðu sérfræðinganna og því næst mun Umhverfisstofnun fá niðurstöðu þeirra í hendurnar. 

Norðmennirnir voru fengnir til að rannsaka starfsemina og reyna að finna út hvernig hægt er að koma í veg fyrir lyktarmengun sem leggst yfir nágrenni verksmiðjunnar þegar kveikt er á brennsluofnum hennar.

Fulltrúar United Silicon funduðu með norsku sérfræðingunum og Umhverfisstofnun á föstudaginn. Fundurinn gekk vel, að sögn Kristleifs. Hann tekur fram að verið sé að vinna í alls kyns hlutum sem eiga að hjálpa fyrirtækinu að bæta rekstur sinn.

„Það eru ýmsar endurbætur sem er hægt að gera núna þegar verksmiðjan er stopp,“ segir hann og nefnir viðgerðir vegna brunans sem varð í verksmiðjunni á dögunum, auk smávægilegra endurbóta á búnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert