„Allt í plati, við erum hætt við“

Ástráður segir að umbjóðendum sínum hafi verið það nauðugur kostur …
Ástráður segir að umbjóðendum sínum hafi verið það nauðugur kostur að leita dómstóla. Mynd/Sigurður Bogi Sævarsson

„Í þessu tiltekna máli var um að ræða fólk sem setti eignina á sölu. Það var gert tilboð í eignina og seljendur gerðu gagntilboð. Kaupendur gengu að gagntilboðinu. Samkvæmt íslenskum lögum er það þannig að þegar liggur fyrir samþykkt kauptilboð eða gagntilboð þá er kominn á kaupsamningur,“ segir Ástráður Haraldsson, lögmaður hjóna sem leituðu til dómstóla svo hægt væri að ganga frá kaupsamningi á fasteign í Grafarvogi eftir að þau höfðu tekið bindandi gagntilboði í eignina.

Seljendur eignarinnar töldu sig geta fallið frá sölunni vegna fyrirsjáanlegra vanefnda kaupenda. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu var sú að gengið skyldi frá kaupsamningi á eigninni, öllum veðskuldum skyldi aflétt og hún afhent stefnendum sem fyrst.

For­saga máls­ins er sú að seljendur settu íbúð sína á sölu í maí á síðasta ári og fengu í hana til­boð upp á 32,5 millj­ón­ir króna. Þau gerðu gagn­til­boð upp á 34 millj­ón­ir króna, sem var samþykkt. Af­hend­ing eign­ar­inn­ar átti að fara fram 1. sept­em­ber síðastliðnum.

Í gagn­til­boðinu var gerður fyr­ir­vari um greiðslu­mat kaup­enda og voru lán vegna kaupa á eign­inni samþykkt inn­an upp­gef­ins tím­aramma. Þá var í gagn­til­boðinu vísað til sölu­yf­ir­lits, sem fest var við hús­fé­lags­yf­ir­lýs­ing um ástand húss­ins og yf­ir­vof­andi fram­kvæmd­ir.

Vildu fá umræðu

„Mínir skjólstæðingar féllust á gagntilboð sem var gert og þannig telja þau að komist hafi á bindandi samningur um kaup á fasteigninni. Þau urðu þess síðar áskynja að yfirlýsing húsfélags sem seljendur höfðu lagt til grundvallar kaupunum kynni að vera röng eða ónákvæm. Að seljendur hefðu í raun gefið þeim rangar upplýsingar um þær sameiginlegu framkvæmdir sem stæðu fyrir dyrum í húsinu.“

Þegar nýrrar yfirlýsingar hafði verið aflað frá húsfélaginu kom í ljós að hugsanlega þyrfti að fara í frekari aðgerðir við utanhússviðgerðir en komu fram í fyrri yfirlýsingu.

„Að þessu tilefni áskildu umbjóðendur mínir sér rétt til að gera fyrirvara í sambandi við fráganginn á kaupunum. Þau vildu að minnsta kosti fá umræðu um hvaða efnislegu þýðingu þetta kynni að hafa. En seljendur neituðu að fjalla um þetta. Neituðu meira að segja að hitta kaupendur á fundum. En það var aldrei fallið frá kaupunum af hálfu kaupenda. Það virðist vera að seljendur hafi litið svo á að þeim væri tækt að segja bara „allt í plati, við erum hætt við“. En þannig eru ekki lögin í landinu,“ segir Ástráður.

Vanefnd á að koma seljanda í koll

Þegar kom að undirritun kaupsamnings óskuðu kaupendur eftir því að gamla húsfélagsyfirlýsingin yrði notuð til grundvallar kaupunum, en fasteignasali sagðist ekki geta haft milligöngu um söluna nema rétt gögn væru notuð. Í kjölfarið sögðust seljendur ætla að hætta við söluna. En í samtali við mbl.is í gær sagði Sveinn Guðmundsson, lögmaður seljenda, að skjólstæðingar sínir hefðu óttast mögulega skaðabótaskyldu ef rétt gögn væru ekki notuð. 

Ástráður segir mjög einfalda skýringu á ósk umbjóðenda sinna um að notast yrði við eldri yfirlýsinguna, nema samtal færi fram um upplýsingar í þeirri nýju.

„Ef þú festir kaup á íbúð og þú færð upplýsingar um að yfirlýsing sé röng, og að það falli á þig kostnaður langt fram um það sem kemur fram í þeirri yfirlýsingu, þá getur það verið galli í skilningi fasteignakaupalaga. Þú gætir hugsanlega átt rétt á því að krefjast afsláttar af kaupverði vegna þessa,“ segir Ástráður. Fram kemur þó í dómnum að ekkert benti til þess að ný húsfélagsyfirlýsing hefði leitt til frekari fjárútláta. Kaupendur vildu engu að síðar eiga samtal við seljendur um þetta mál áður en samþykkt yrði að nýja yfirlýsingin yrði notuð til grundvallar í kaupunum.

„Aðalatriðið í þessu máli er að ef það er einhver vanefnd til staðar, þá er hún á ábyrgð seljandans en ekki kaupanda. Hún á þá að koma seljanda í koll en ekki kaupanda. Það sem er óvenjulegt í þessu máli er seljandi skuli líta svo á að hans eigin vanefndir eigi að leiða til þess að hann sé í aðstöðu til að rifta kaupsamningi. Þegar seljendur vildu ekki ganga frá málinu þá var þeim nauðugur kostur að knýja það fram fyrir atbeina dómstóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert