Fimmtugur í fantaformi

Óskar Einarsson með Bente Bensdóttur, eiginkonu sinni til þrjátíu ára.
Óskar Einarsson með Bente Bensdóttur, eiginkonu sinni til þrjátíu ára.

Óskar Einarsson fagnar 50 ára afmæli sínu þann 28. maí með tónleikum í Lindakirkju. Þar kemur fram einvala lið tónlistarmanna, kórar og einsöngvarar. Allur ágóði af tónleikunum rennur til kaupa á sólarsellum fyrir skóla ABC-samtakanna í Burkina Faso.

Með því að framleiða rafmagn með sólarsellum er nemendum gert kleift að nýta tölvur sem skólanum hafa verið gefnar og hægt verður að bæta úr kennslu á hljóðfæri.

Óskar Einarsson er öflugur tónlistarmaður sem ræktar líkama og sál Hann hefur aldrei verið í betra líkamlegu formi en á fimmtugsafmæli sínu. Óskar er Akureyringur í húð og hár eins og hann orðar það. ,,Ég er tónlistarmaður og lífsglaður einstaklingur sem hef gaman af því sem lífið hefur uppá að bjóða.“

Óskar ákvað á unglingsaldri að verða tónlistarmaður Hann flutti því til Reykjavíkur 24 ára gamall til að mennta sig í tónlist og nýta þau tækifæri sem höfuðborgin hafði upp á að bjóða.

Óskar hefur komið víða við og tekur þátt af lífi …
Óskar hefur komið víða við og tekur þátt af lífi og sál.


Gefið konunni blóm í 30 ár

Óskar er kvæntur Bente Bensdóttur, saman eiga þau þjú börn. ,,Konan mín er norsk og ég gef henni alltaf blóm á 17. maí sem er þjóðhátíðardagur Norðmanna. Ég hef gert þetta í 30 ár. Við kynntumst þegar hún var 15 ára og ég 19 ára. Við höfum verið trúlofuð í 30 ár og saman í 31 ár,“ segir Óskar með stolti og hlýju.

Sem barn lifði Óskar og hrærðist í tónlist. Í fjölskyldu Óskars hefur tónlist skipað stóran sess. ,,Fjölskyldan mín kemur úr Hjálpræðishernum og ég var mikið á samkomum. Ég hef að mestu verið í kirkjutónlist og gospel en komið víða við, allt frá rokki til óperutónlistar. Ég er lærður í tónlist og spila á saxófón, flautu og klarinett auk píanóleiks og kórstjórnunar. Ég er útskrifaður með mastersgráðu frá University of Miami.“

Tekjur og andleg lífsfylling

Hvað gefur tónlistin Óskari Einarssyni? ,,Tónlistin gefur tekjur til að lifa af og andlega lífsfyllingu hvort sem ég er að spila gospel eða Chopin. Auðvitað fæ ég stundum nóg af tónlist og þá er fínt að taka smá pásu eins og þegar maður kemur heim af Eurovision,“ segir Óskar hlæjandi.

,,Eurovision var skemmtileg upplifun og svo er þetta búið. Ég gæti ekki hugsað mér að fara aftur í Eurovisionbúbbluna, alla vega ekki í bili. Þetta snýst mikið um að vekja athygli og safna atkvæðum. Ég hef alltaf verið aðdáandi og oft tekið þátt heima, útsett lög og sungið. Hver hefði trúað því að ég ætti eftir að fara í lokakeppni Eurovision sem söngvari.Það er gaman að hafa náð þessu fyrir fimmtugt.“

Óskar segist ánægður með lag Svölu, Paper, og var sannfærður um að henni myndi ganga vel. ,,Það var frábært að kynnast Svölu Björgvins og Einari manninum hennar,“ segir Óskar og lokar ekki alveg á þann möguleika að fara aftur. ,,Það skiptir mig máli að lögin hafi boðskap. Ég hef oft neitað verkefnum vegna innihalds laganna.“

Óskar Einarsson heldur tónleika á sjálfan afmælisdaginn.
Óskar Einarsson heldur tónleika á sjálfan afmælisdaginn.


Uppörvar og snertir strengi

Fjölbreytni einkennir þau verkefni sem Óskar hefur tekist á við. Má þar nefna Sálin og Gospel, þar sem Óskar útsetti lögin, spilaði á píanó og stjórnaði Gospelkór Reykjavíkur. Hann útsetti einnig og spilaði með Óperudraugunum í Hörpu og Hofi. Einnig hefur Óskar útsett lög fyrir kóra og einsöngvara.

,,Fjölbreytnin og það sem tónlistin gefur er ástæða þess að ég er enn í tónlistarbransanum. Tónlistin gerir svo margt fyrir fólk. Hún uppörvar og snertir strengi sem fáar aðrar listir snerta. Lagið sem vann Eurovison í ár, bræðir hjörtu fólks í Evrópu. Það er jafn gefandi að flytja tónlist, sem er læknandi, í útförum og að syngja gospel, sem eykur gleði og gefur von.“

Rannsóknir hafa bent til þess að það sé hollt að syngja í kór. Söngur örvar efni í heilanum og eykur endorfín í líkamanum, segir Óskar og bætir við að hann hafi aldrei sungið í kór undir stjórn einhvers annars nema þegar hann var krakki.

Gospeltónlist er sú tegund tónlistar sem Óskar er þekktastur fyrir. Hann hefur stjórnað kór Fíladelfíu í fjölda ára og gerir enn. Óskar stjórnar einnig kór Lindakirkju og fleiri verkefnatengdum hópum.

Óskar hét sjálfum sér því þegar hann var fertugur að …
Óskar hét sjálfum sér því þegar hann var fertugur að verða í betra formi fimmtugur. Því markmiði er náð.


„Gospel og trúarleg tónlist heyrist ekki mikið í útvarpi á Íslandi fyrir utan útvarpsstöðina Lindina. Það er eins og útvapstöðvarnar séu feimnar við að spila gospel. Þeim finnst kannski að boðskapurinn sé of sterkur. Færeyingar eru sem dæmi opnari fyrir því að spila trúarlega tólist,“ segir Óskar og bendir á að margir af bestu söngvurum heims komi úr heimi kirkjunnar. Hann nefnir sem dæmi Whitney Houston, Mariah Carrey og Fantasia.

Líkamlegt form skiptir öllu

Vinnudagar Óskar eru oft langir og strangir. Þegar viðtalið fór fram um miðjan dag var Óskar þegar búinn að syngja í tveimur jarðarförum. Þar af annarri utan höfðuðborgarsvæðisins þar sem hann sá einn um alla tónlist í athöfninni. Um kvöldið var Óskar á leið á þriggja tíma æfingu fyrir afmælistónleikana en ætlaði í millitíðinni að taka eina crossfit-æfingu.

,,Heilsan skiptir gríðarlegu máli. Ég gæti ekki gert allt það sem ég er að gera nema að vera í góðu líkamlegu formi.“ Óskar æfir crossfit og leggur sig fram í líkamsræktinni. ,,Ég lofaði sjálfum mér að verða í betra formi fimmtugur en fertugur,“ segir Óskar sem náði því markmiði sínu og gott betur.

Þriggja daga afmælishelgi er framundan hjá Óskari þar sem hann fagnar með fjölskyldu og vinum og endar svo afmælishelgina á stórtónleikum í Lindakirkju. ,,Ég hef unnið með svo mörgum listamönnum og kórum að það var erfitt að velja óskalögin mín. Aðaláherslan verður á gospeltónlistina með öllum kórunum mínum. Okkur til halds og traust verða einsöngvarar úr kórunum auk úrvals söngvara og hljómlistarmanna.“

Sólarsellur gefa tækfæri

Tónleikarnir á sunnudagskvöld eru auk þess að vera afmælistónleikar Óskars, góðgerðartónleikar þar sem allir sem að þeim koma gefa vinnu sína. ,,Ég ætlaði fyrst að hafa frítt inn á tónleikana en langaði að skilja eitthvað eftir mig. Ég ákvað því að hafa aðgangseyri á tónleikana 3000 krónur til styrktar kaupum á sólarsellum fyrir skóla sem ABC-hjálparstarf rekur í Burkina Faso.“

Sólarsellurnar munu nýtast til þess að framleiða rafmagn en áætlað er að það vanti 1,5 milljónir króna til að klára verkefnið. ,,Með því að gefa skólanum kost á rafmagni þá geta nemendur nýtt tölvur sem þeim hafa verið gefnar og lært á hljóðfæri. Það eru Íslendingar sem reka skólann í Burkina Faso og ég veit að fjármagnið fer beint í verkefnið. Kannski fer ég út og og heimsæki skólann,“ segir Óskar dreyminn.

Óskar hvetur fólk til þess að mæta á tónleikana og styðja gott málefni. ,,Ég mun sjálfur sjá um kynningu á tónleikunum og ég lofa heimilislegri stemmingu og frábærri tónlistarveislu.“

,,Tilfinningin fyrir tónleikunum er góð og ég er fullur eftirvæntingar. Það eru samt pínu blendnar tilfinningar að verða fimmtugur og það verður ekki aftur snúið. Ég er þakklátur fyrir að hafa góða heilsu á þessum aldri og er spenntur fyrir framhaldinu,“ segir hinn fimmtugi og eldhressi Óskar Einarsson tónlistarmaður.

Afmælis- og góðgerðartónleikar

Óskar Einarsson tónlistarmaður kynnir óskalögin sín á tónleikum í tilefni af 50 ára afmæli sínu, í Lindakirkju sunnudaginn maí kl. 20:00 Gospelkór Fíladelfíu, kór Lindakirkju og Gospeltónar syngja undir stjórn Óskars. Einsöngvarar verða Páll Rósinkranz, Eyþór Ingi og Jóhanna Guðrún auk einsöngvara úr kórunum. Hlóðfæraleikarar verða þeir Friðrik Karlssson, Davíð Sigurgeirsson, Brynjólfur Snorrason, Páll Elvar Pálsson, Ingvar Alfreðsson, Jóhann Ásmundson, Óskar Guðjónsson,og Kjartan Hákonarson. Allir listamenn gefa vinnu sína og rennur ágóði af tónleikunum óskiptur til kaupa á sólarsellum fyrir skóla ABC sem rekinn er af Íslendingum í Burkina Faso. Miðaverð er 3000 kr. og miðasala fer fram á midi.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert