Fordæmir „hótanir“ forstjóra Primera

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Alþýðusambands Íslands fordæmir „hótanir“ Andra Más Ingólfssonar, forsvarsmanns Primera Air Nordic SIA, á hendur formanni Flugfreyjufélags Íslands sem fram komu í viðtali við hann í Morgunblaðinu á sunnudaginn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ASÍ.

„Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess standa einhuga að baki formanni FFÍ og þeim aðgerðum sem félagið fer fyrir. Þau munu veita Flugfreyjufélagi Íslands allan þann stuðning sem þau geta og sem þörf verður á, fáist flugfélagið ekki til viðræðna um kaup og kjör flugfreyja og flugþjóna um borð í vélum félagsins vegna þeirra sem starfa sem unnin eru á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

„FFÍ samþykkti þann 9.5 2017 verkfall flugfreyja og flugþjóna um borð í vélum PAN frá og með 15.9 n.k. hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þessar aðgerðir virðast koma forsvarsmönnum PAN á óvart. Það er athyglisvert þar sem þegar árið 2015 gerði FFÍ kröfu á hendur PAN um kjarasamning um störf flugfreyja og flugþjóna PAN sem starfa hér á landi en skv. upplýsingum Andra Más Ingólfssonar í Morgunblaðinu þann 21.5 sl., vinna þessar áhafnir hér á landi í 6-8 vikur í senn. Hann segir raunar að í flestum tilfellum sé „... þetta fólk sem sækist eftir tilbreytingu og vill koma og vinna á Íslandi í nokkrar vikur á ári“.“

Forseti ASÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla forsvarsmanns …
Forseti ASÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla forsvarsmanns Primera Air Nordic SIA. mbl.is/ÞÖK

Fram kemur að ASÍ hafi undir höndum gögn frá flugliðum PAN, sem Andri Már fullyrðir að hafi engin tengsl við FFÍ, sem sýni hvernig kjörum þeirra sé háttað. Þau kjör eigi ekki að ráðast af einhliða ákvörðunum atvinnurekanda heldur af kjarasamningum sem FFÍ er í lögmætu umboði til að krefjast og sem gildi á íslenskum vinnumarkaði, óháð þjóðerni starfsmanna eða fyrirtækis.

„Engin viðbrögð komu frá PAN 2015 og 2016 vegna kröfu FFÍ og í desember 2016 var hún ítrekuð án þess að Primera Air brygðist við. Í samræmi við lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur var málinu vísað til ríkissáttasemjara en þar sem sú málaleitan bar ekki árangur var efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls eins og fyrr segir. Sú boðun hefur verið tilkynnt PAN og ríkissáttasemjara með lögmætum hætti. Allt þetta ferli er í fullu samræmi við íslensk lög og það stendur upp á forsvarsmenn PAN að svara þeim erindum sem til þeirra er beint með lögmætum hætti. Þeim ber einnig að skýra fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu og opinberum stofnunum hvers vegna það fólk sem PAN sendir hingað til lands í 6 til 8 vikur á ári til þess að vinna falli ekki undir íslenskar vinnumarkaðsreglur. Ekkert af þessu gerir Primera Air heldur hótar höfðun skaðabótamáls á hendur nýkjörnum formanni FFÍ. Þetta er framkoma sem er engu fyrirtæki sæmandi og við hana mun íslensk verkalýðshreyfing ekki una,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert