Styðja flugfreyjur í deilunni við Primera

Tvö stéttarfélög á Suðurnesjum, sem eru með starfsmenn í Leifsstöð, …
Tvö stéttarfélög á Suðurnesjum, sem eru með starfsmenn í Leifsstöð, hafa samþykkt stuðningsyfirlýsingar við Flugfreyjufélag Íslands í vinnudeilu þess við Primera Air Nordic. mbl.is

Stjórnir tveggja stéttarfélaga á Suðurnesjum, sem eru með starfsmenn í Leifsstöð, hafa samþykkt stuðningsyfirlýsingar við Flugfreyjufélag Íslands í vinnudeilu þess við Primera Air Nordic. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ en félögin sem um ræðir eru Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.

Félögin heita því í stuðningsyfirlýsingum sínum að veita Flugfreyjufélaginu alla þá aðstoð sem þeim er heimilt að veita samkvæmt lögum ef deilan dregst á langinn. Í húfi sé kjarasamningsréttur íslenskra stéttarfélaga gegn undirboðum erlendra þjónustufyrirtækja á Íslandi.

Flugfreyjufélag Íslands samþykkti vinnustöðvun flugfreyja um borð í vélum Primera Air Nordic í byrjun maí en verkfall mun hefjast þann 15. september 2017 hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.

„Laun flugliða Primera Air, sem flestir eru frá Lettlandi, eru langt undir íslenskum lágmarkslaunum auk þess sem þeir njóta ekki ýmissa þeirra réttinda sem lög- og kjarasamningsbundin eru hér á landi. Primera Air Nordic starfar á Íslandi og flugliðar þess eru með heimahöfn hér á landi,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert