Nótt í nafni Foringjanna

Oddur, Þórður og Jósep eru liðsmenn Foringjanna.
Oddur, Þórður og Jósep eru liðsmenn Foringjanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferill rokksveitarinnar Foringjanna spannaði fjögur ár í lok níunda áratugarins. Þeir unnu sér meðal annars til frægðar að hita upp fyrir Bonnie Tyler í Laugardalshöllinni og síðar glysgoðin í þungarokkssveitinni Kiss í Reiðhöllinni í Víðidal.

Foringjarnir voru vinsæl dansiballahljómsveit og keyrðu landshorna milli á sérmerktri rútu til að spila amerískt „eitís“rokk sem og frumsamda tónlist fyrir dansglaðan æskulýðinn. Síðan hefur lítið til þeirra spurst þar til nýlega að þeir sendu frá sér smáskífuna Nótt.

Foringjarnir hituðu upp fyrir Kiss á sínum tíma. Þórður Bogason.
Foringjarnir hituðu upp fyrir Kiss á sínum tíma. Þórður Bogason.

Frægðarsól Foringjanna reis hæst þegar þeir hituðu upp fyrir bandarísku þungarokkssveitina Kiss í Reiðhöllinni í Víðidal árið 1988 eins og mörgum er enn í fersku minni. Foringjunum Þórði Bogasyni, Jósep Sigurðssyni, Oddi F. Sigurbjörnssyni og Einari Jónssyni þótti sér að vonum mikill sómi sýndur, enda þungarokkarar í hjarta sínu og miklir aðdáendur glysgoðanna í Kiss.

Mesti smellur Foringjanna var Komdu í partý, sem kom út á samnefndri plötu sumarið 1987, og skoraði hátt á vinsældalista Bylgjunnar. Ferill sveitarinnar spannaði árin frá 1986-1990, en síðan hefur lítið til hennar spurst. Eða þar til fyrir nokkrum dögum að þrír þeirra, Þórður söngvari, Jósep hljómborðsleikari og Oddur trommari, sendu frá sér Nótt, þriggja laga smáskífu, í nafni Foringjanna, og kvöddu sér jafnframt hljóðs á Youtube, Spotify og tónlist.is.

Rokkskotið popp

„Við lögðum hljómsveitina aldrei formlega niður, ætluðum bara í smápásu, en hún varð býsna löng. Nokkrir okkar hafa þó hist annað slagið í áranna rás og brallað ýmislegt saman. Fyrir þremur árum hentum við þrír, ég, Jósep og Oddur, í smáskífu með jólalaginu Biðin eftir aðfangadegi, sem seldist reyndar ekkert sérstaklega vel, enda vorum við fullseinir á ferðinni í byrjun desember. Um þrjú þúsund áhorf á Youtube er samt ekki svo slæmt. Sjálfum finnst okkur jólin ekki vera komin fyrr en við hlustum á lagið, sem er bæði fallegt og með fallegum texta,“ segir Þórður.

„Þótt ég segi sjálfur frá,“ bætir hann svo við af stakri hógværð. Hann samdi bæði lagið og textann.

Þórður og Einar Jónsson.
Þórður og Einar Jónsson.

Þremenningarnir hittast reglulega í kjallaranum heima hjá Jósep í Kópavoginum þar sem þeir segjast alltaf vera „að búa eitthvað til“ og eiga ýmislegt í pokahorninu. Þórður upplýsir að nokkrir gítar- og bassaleikarar hafi lagt þeim lið við gerð nýju smáskífunnar og nefnir til sögunnar Þráin Árna Baldvinsson, gítarleikara Skálmaldar, og Jakob Smára Magnússon, bassaleikara í stórböndum eins og Das Kapital og SSSól. Hann segir að töluverðan tíma hafi tekið að fullvinna lögin.

Þórður sést hér ræða við Paul Stanley söngvara Kiss.
Þórður sést hér ræða við Paul Stanley söngvara Kiss.

„Ég samdi lögin og textana og Jósep sá að mestu um útsetningar en annars unnum við þetta í sameiningu. Í sumar ákváðum við að spýta í lófana, reka endahnútinn á meistaraverkið og koma því frá okkur. Eitt lagið heitir Nótt eins og smáskífan, hin tvö Leyndarmál og Þú. Þeim er best lýst sem rokkskotnum popplögum, Nótt er það rokkaðasta, Leyndarmál aðeins poppaðra og Þú er nokkurs konar rokkballaða. Amerískt, melódískt „eitís“rokk lýsir lögunum kannski best því þau eru í anda þeirra sem við spiluðum þegar við vorum hvað mest á ferðinni,“ segir Þórður.

„Hljómsveitin sem hér um ræðir er skemmtileg blanda af sjóuðum hljóðfæraleikurum og ungum ósjóuðum piltum sem vonandi eiga eftir að sanna sig og gott betur,“ sagði um hina nýstofnuðu hljómsveit Foringjanna á poppsíðu Tímans haustið 1986. Um söngvarann stóð þetta: „Þórður hefur hvergi komið áður við sögu svo um sé talandi en ku vera góður.“

jóaður eða ekki sjóaður? Það sem Tímanum þótti ekki talandi um var að Þórður hafði til dæmis sungið með hljómsveitunum Þrek, Þrym og F áður en hann stofnaði Foringjana. Og aukinheldur sungið lögin á Pakkaþukli, rokkaðri þriggja laga jólaplötu sem F gaf út 1985. „Ég hafði líka verið rótari hjá Paradís, hljómsveit Péturs Kristjánssonar heitins, sem var átrúnaðargoð mitt á þessum árum, og fleiri sveitum og var alltaf mikið að grufla í músík,“ segir hann.

Þeir Jósep og Oddur áttu sér líka fortíð í tónlistarbransanum, Jósep sem hljómborðsleikari með ýmsum hljómsveitum og Oddur sem trommari í Tappa tíkarrassi.

Dansiballatíminn var að renna sitt skeið á tíunda áratugnum, stemmningin fyrir „eitís“rokki fór þverrandi og æ minni eftirspurn varð eftir stuðsveitum á borð við Foringjanna. Fyrstu árin eftir að þeir lögðu óformlega upp laupana unnu þeir með ýmsum hljómsveitum, voru í pöbbaspilamennskunni, stundum saman, stundum hver í sínu lagi. Þórður er löngu hættur en Oddur og Jósep eru enn að. „Foringjarnir rétt náðu í skottið á sveitaballamenningunni. Við spiluðum oft fjögur kvöld í viku á böllum úti um allar trissur, stundum á tónleikum og einu sinni á útihátíð. Við keyptum okkur rútu, sem við merktum Foringjarnir með stórum stöfum, og keyrðum landshorna á milli hvernig sem viðraði,“ rifjar Þórður upp.

Því má skjóta inn að Foringjarnir hituðu upp fyrir Bonnie Tyler á tónleikum í Laugardalshöllinni í desember 1986 auk sveitanna Rikshaw og Skriðjökla. Og sönnuðu sig þá fyrir poppskríbent Tímans, sem sagði Foringjana hafa komið stórkostlega á óvart. „Músíkin er þétt rokk sem auðvelt er að grípa,“ skrifaði hann. Bonnie Tyler fannst honum hins vegar hreinasta hörmung.

Oddur F. Sigurbjörnsson, Jóep Sigurðsson. Steingrímur Erlingsson, Þórður Bogason og …
Oddur F. Sigurbjörnsson, Jóep Sigurðsson. Steingrímur Erlingsson, Þórður Bogason og Einar Jónsson.

Þeim félögum þótti virkilega hlaupa á snærið hjá sér þegar þeim bauðst að spila heilan vetur í offíseraklúbbnum á Keflavíkurflugvelli. „Kanarnir voru mjög þakklátir áheyrendur. Þarna var tónleikastemmning sem endaði yfirleitt í smáskralli. Mjög skemmtilegt og líka gott að komast í steik og bjór,“ segir Þórður.

Pínleg uppákoma

Spurðir um ævintýri og eftirminnileg atvik, kannski grúppíur á öllu þessu tónlistarbrölti út og suður vilja þeir fyrir það fyrsta ekkert um grúppíur ræða. „Foringjarnir áttu sér lítinn hóp fylgjenda, bæði stráka og stelpna, sem eltu okkur stundum á böllin,“ segja þeir. Skröltið á Foringjarútunni upp um holt og heiðar í ófærð og brjáluðu veðri er þeim einna minnisstæðast. Oft komust þeir við illan leik á dansiböllin, höfðu fest rútuna og lent í alls konar vandræðum og veseni.

Þeir hafa húmor fyrir sjálfum sér og Þórður lætur sögu af fremur pínlegri uppákomu flakka: „Okkur var mál að pissa einu sinni þegar við vorum að bera græjurnar út í rútu eftir ball í offíseraklúbbnum. Þar sem rútan var langt frá húsinu stukkum við bak við kofa til þess að hlýða kalli náttúrunnar. Skyndilega birtist stór jeppi með háu ljósin og út stukku vopnaðir og grimmúðlegir herlögreglumenn, sem spurðu hvern djöfulinn við værum eiginlega að gera. Þeir öskruðu á okkur að stranglega væri bannað að míga utandyra. Þótt þeir hafi ekki beint byssunum að okkur urðum við skíthræddir og nánast lögðumst á hnén til að biðjast afsökunar á framferðinu. Svona á maður náttúrlega ekki að gera, en okkur þótti við hafa sloppið vel að vera ekki færðir í járnum í fangelsi.“

Mikið upp úr Nótt að hafa

Þótt Foringjarnir ættu miklum vinsældum að fagna um árabil voru allir í fullu starfi samhliða spilamennskunni. Undanfarin ár hefur tónlistin þó mestanpart verið áhugamál sem þeir sinna þegar stund gefst frá öðrum störfum. Þórður er varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, ökukennari og hundaræktandi. Oddur starfar við rafvirkjun og Jósep er vélstjóri.

Útgáfa smáskífunnar Nætur helgast ekki af ágóðavon. Þvert á móti var þeim ljóst að henni fylgdi bara kostnaður. „Hins vegar er mikið upp úr henni að hafa í formi gleði og ánægju,“ segir Þórður og hinir Foringjarnir taka heilshugar undir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert