Ráðgátan um dularfulla saumaborðið

Það kennir ýmissa grasa í Góða hirðinum.
Það kennir ýmissa grasa í Góða hirðinum. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Í Góða hirðinum finnast margir áhugaverðir, jafnvel sögulegir, hlutir. Að þessu komst Matthildur Þórarinsdóttir þegar í hana hringdi kona í síðustu viku og sagðist hafa fundið hjónavígsluvottorð afa og ömmu eiginmanns hennar.

Konan hafði farið í Góða hirðinn á föstudaginn þar sem hún fann saumaborð sem henni leist vel á. Þegar hún tók lokið af því kom í ljós að það var fullt af ljósmyndum og þar lá einnig umrætt hjónvavígsluvottorð.

Konan ákvað að kaupa vottorðið og fann út hverjir afkomendur hjónanna væru.

Hún hafði samband við Matthildi sem fór í Góða hirðinn til þess að skoða myndirnar en þegar hún kom þangað var búið að selja borðið.

Erla Svansdóttir er í fjölskyldunni og birti í kjölfarið færslu á Facebook þar sem hún auglýsti eftir saumaborðinu.

Þar fékk hún viðbrögð hjá konu sem sagðist hafa séð aðra konu skoða borðið í Góða hirðinum og benti henni á að láta afgreiðslufólkið fá myndirnar ef hún ætlaði sér að kaupa borðið. Matthildur fór aftur í Góða hirðinn að skoða myndirnar en fjölskyldan kannaðist ekki við neinar af þeim.

Í dag fóru Matthildur og maðurinn hennar til konunnar sem keypti hjónavígsluvottorðið og sýndu henni myndirnar en hún sagði að þetta væru ekki þær sömu og voru í borðinu.

„Okkur finnst mjög einkennilgt að þetta hjónavígsluvottorð hafi verið í borðinu ef það hafi ekki tilheyrt fjölskyldunni,“ segir Matthildur. Hjónin á vottorðinu, foreldrar eiginmanns hennar, eru Sólveig Jónsdóttir og Steindór Pálsson en samkvæmt Matthildi var Sólrún, líka kölluð Sóla, eitt sinn ástkona Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar.

Sá sem keypti borðið hefur ekki enn þá fundist og ekki er vitað hvort myndirnar séu enn í borðinu eður ei.

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert