80% fleiri umsóknir um vernd en í fyrra

130 manns sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í júní.
130 manns sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í júní. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

130 manns sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í júní og er heildarfjöldi umsókna á fyrstu sex mánuðum ársins þá orðinn 500. Það eru um 80% fleiri umsóknir en bárust á fyrri helmingi síðasta árs, þegar 275 umsóknir bárust. Sé fjölgun umsókna borin saman við allt árið í fyrra kunna umsóknir um alþjóðlega vernd í ár að verða allt að 2.000.

Þetta kemur fram í frétt á vef Útlendingastofnunnar.

Þeir umsækjendur sem sóttu um vernd í júní voru af 19 þjóðernum og komu flestir þeirra frá Albaníu, eða 44, og 40 frá Georgíu. Alls komu 42% umsækjenda frá ríkjum Balkanskagans.

78% umsækjenda voru karlkyns og 22% kvenkyns, þá voru 85% umsækjenda komnir á fullorðinsaldur, en 15% voru yngri en 18 ára. Þrír umsækjendur kváðust vera fylgdarlaus ungmenni.

Niðurstaða fékkst í 93 mál í júnímánuði. Af þeim voru 33 umsóknir teknar til efnislegrar meðferðar, en þar fengu 9 mál forgangsmeðferð. 24 af þeim 33 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með synjun, en í níu tilfellum fengu umsækjendur vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

16 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 44 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.

Þá styttist málsmeðferðartími umsókna um vernd á öðrum ársfjórðungi og er nú að meðaltali 116 dagar.

Tæpur helmingur fær þjónustu á höfuðborgarsvæðinu

Um 550 manns sem sótt hafa um vernd fá nú þjónustu á Íslandi og fá um 250 þeirra þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Þá veitir móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar um 300 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar. 

Stoðdeild ríkislögreglustjóra flutti 42 einstaklinga úr landi í júní. 25 einstaklingar yfirgáfu landið sjálfviljugir með stuðningi Útlendingastofnunar í mánuðinum og 13 með stuðningi Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar (IOM).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert