Slegist um kókflöskusafn Kristínar

Safnið telur um 50 flöskur og einhverjar þeirra gætu verið …
Safnið telur um 50 flöskur og einhverjar þeirra gætu verið verðmætar. Mynd/Kristín Stefánsdóttur

Síminn hjá Kristínu Stefánsdóttur hefur ekki stoppað frá því í gærkvöldi, þegar hún auglýsti kókflöskusafnið sitt til sölu á Facebook-síðunni Brask og brall. Safnið telur tæplega 50 flöskur og sumar þeirra gætu jafnvel verið verðmætar, án þess að Kristín viti það með vissu. Safnið er engu að síður stórmerkilegt og augnayndi fyrir kókáhugafólk og safnara.

Þegar mbl.is náði tali af Kristínu, tæpum sólarhring eftir að hún setti safnið á sölu, hafði hún ekki enn tekið neinu tilboði, en mörg góð höfðu borist. Áhuginn á safninu er svo mikill að Kristín er jafnvel að spá í að halda bara uppboð. Hún vill að minnsta kosti koma safninu í góðar hendur.

Kóksjúklingur gæti notið safnsins

„Ég byrjaði að safna þegar ég var unglingur og ég er núna 41 árs. Ég hef samt ekki safnað markvisst allan þennan tíma, en ég hef til dæmis komið með flöskur heim frá Kína, Afríku og Danmörku,“ segir Kristín um tilurð safnsins. Einhverjar flöskur hefur hún fengið gefins og þekkir því ekki upprunann. Elsta flaskan sem hún veit um í safninu er frá árinu 1990, en eldri flöskur gætu hafa komið inn sem gjafir.

Safnið hefur verið inni í skáp síðustu árin og því ekki fengið að njóta sín sem skyldi. Það er einmitt ein ástæða fyrir sölunni. „Ég er að losa geymsluna núna því ég er nýbúin að eignast barn og við ætlum að útbúa annað herbergi. Ég hef hingað til ekki tímt að láta þetta frá mér, en ég hugsaði með mér að kannski væri einhver kóksjúklingur þarna úti úti, sem hefði meira gaman af þessu en ég.“

Spurði hvort hún tímdi þessu

Líkt og áður sagði hefur síminn ekki stoppað og ýmis tilboð hafa borist. „Einn bauð mér vinnuframlag að andvirði 200 þúsund króna, ef ég vildi láta laga húsið mitt,“ segir hún hlæjandi, en tekur jafnframt fram að tilboðið sé mjög gott, enda einmitt komið að viðhaldi á eign hennar.

Kristín vill koma safninu í góðar hendur, enda hefur það …
Kristín vill koma safninu í góðar hendur, enda hefur það ekki fengið að njóta sín heima hjá henni síðustu árin. Mynd/Kristín Stefánsdóttir

Kristín gerir sér í raun ekki grein fyrir verðmæti safnsins, en hún er búin að fara rækilega yfir Ebay og leita að einhverju sambærilegu, án þess að komast að niðurstöðu. „Fæstar þessara flaska eru inni á Ebay. Einhverjar eru kannski hálfverðlausar á meðan aðrar eru sjaldgæfar og því töluvert verðmætar.“

Kristín hlær þegar hún er spurð hvort hún sé viss um að hún tími að láta safnið frá sér. „Maðurinn minn spurði mig einmitt að þessu í gær og ég hafði alveg efasemdir, en ég er komin á þá skoðun núna að það sé skemmtilegra fyrir einhvern annan að fá að njóta safnsins.“

Hefur ekki drukkið kók í 20 ár

Það mætti ætla að sem kókflöskusafnari drykki Kristín töluvert magn af gosdrykknum sjálf, en það er ekki svo. Alla vega ekki lengur. „Ég hef sjálf ekki drukkið kók í 20 ár. Ég var algjör kóksjúklingur, en ákvað það fyrir 20 árum að nóg væri komið. Ég er samt alltaf hrifin af kókflöskum og finnst gaman að skoða mismunandi gerðir,“ útskýrir hún.

Í safninu kennir ýmissa grasa, en þar eru til að mynda kókflöskur frá Jean Paul Gaultier og Marc Jacobs sem voru framleiddar í takmörkuðu upplagi. Þá er þarna Diet Coke í gleri frá árinu 1990. Kristín á sér að sjálfsögðu uppáhaldsflösku. „Mér þykir eiginlega vænst um hálfan lítra í glerflösku með rauðum tappa, sem ég kom með frá Danmörku 15 ára.“

Þeir sem hafa áhuga á safni Kristínar geta skoðað það betur hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert