Stærsta sumarið í komu skemmtiferðaskipa

„Þetta er stærsta sumarið til þessa,“ segir Erna Kristjánsdóttir, markaðs- …
„Þetta er stærsta sumarið til þessa,“ segir Erna Kristjánsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Faxaflóahafna, en 6.000 manns komu til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega sex þúsund manns komu til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum í dag. Er þetta mesti fjöldi gesta í sumar til þessa. Sól tók á móti gestunum þegar blaðamaður heimsótti Sundahöfn í dag þar sem mikið var um að vera. 

„Þetta er stærsta sumarið til þessa,“ segir Erna Kristjánsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Faxaflóahafna, en í ár eru skráðar hjá þeim 133 skipakomur. Í fyrra voru þær 114 talsins og farþegarnir tæplega 99 þúsund en í ár eru þeir rúmlega 127 þúsund.

Skemmtiferðaskipið Arcadia er með um 2.000 farþega og MSC Preziosa …
Skemmtiferðaskipið Arcadia er með um 2.000 farþega og MSC Preziosa með 3.500, en það síðastnefnda er stærsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Reykjavíkur í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðaþjónustuaðilarnir Atlantic og Iceland Travel sem sjá um allar skipulagningar á ferðum fyrir gesti skipanna auk þess sem Icewear er með þjónustubyggingu á svæðinu þar sem sjálfstæðir ferðaþjónustuaðilar selja ferðir. Á staðnum eru einnig bílaleigur ásamt leigubílum og Hop on – Hop off-rútum. „Það eru ekki allir sem vilja fara í skipulagðar ferðir,“ segir Erna og bætir við „fólk vill líka kynnast nánasta umhverfi og annað slíkt.“

Tvö stærstu skipin eru í Sundahöfn en auk þess að stoppa í Reykjavík koma þau við á Akureyri og Ísafirði. Skemmtiferðaskipið Arcadia er með um 2.000 farþega og MSC Preziosa með 3.500, en það síðastnefnda er stærsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Reykjavíkur í ár.

Icewear er með þjónustubyggingu á svæðinu þar sem sjálfstæðir ferðaþjónustuaðilar …
Icewear er með þjónustubyggingu á svæðinu þar sem sjálfstæðir ferðaþjónustuaðilar selja ferðir. Á staðnum eru einnig bílaleigur ásamt leigubílum og Hop-on Hop-off-rútum. mbl.is/Árni Sæberg

„Spennt að sjá Gullfoss og Geysi“

Blaðamaður mbl.is gaf sig á tal við nokkra gesti skipanna í Sundahöfn þar sem þeir biðu eftir því að fara í dagsferðir um landið. Fjórir Þjóðverjar sem komu með skipinu MSC Preziosa snemma í morgun frá Ísafirði sögðust vera ánægðir með ferðina hingað til. „Þetta er í fyrsta skipti sem við komum hingað,“ sögðu þeir.

Er þetta einnig í fyrsta skipti sem þeir ferðast með skemmtiferðaskipi svo blaðamaður forvitnaðist um upplifun þeirra. „Það er gott. Um borð er spilavíti, kvikmyndahús og fjöldi veitingastaða og bara.“

Í dag ætla þeir að fara Gullna hringinn og í Bláa lónið og er það átta tíma ferðalag. „Við erum spennt að sjá Gullfoss og Geysi.“ Á morgun verður Reykjavík svo skoðuð, en daginn eftir fer skipið til Orkneyja í Skotlandi áður en það snýr aftur til Hamborgar í Þýskalandi.

Vel kunn skemmtisiglingum 

Eldri kona frá Kaliforníu tjáði blaðamanni að þetta væri í fyrsta skipti sem hún kemur til Íslands en hún og eiginmaður hennar hafa oft áður farið í skemmtisiglingar víða um heim. „Það er mjög spennandi í fyrsta skiptið sem maður fer en þegar maður er orðinn vanur eru margir hlutir ekki jafnspennandi,“ segir hún og hlær.

„Mismunandi skemmtiferðaskip bjóða upp á mismunandi hluti. Fyrir okkur er innihald ferðarinnar mikilvægast, okkur langar að fara á staði sem við höfum aldrei farið á áður.“ Er þetta lokaáfangastaður skemmtisiglingar þeirra um Norðurlöndin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert