Fljúgandi og glaðar hetjur á sumarhátíð

Mirra Jörgensdóttir og Ágústa Stefánsdóttir krabbahetjur á flugi.
Mirra Jörgensdóttir og Ágústa Stefánsdóttir krabbahetjur á flugi.

Sumarhátíð Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, SKB, er haldin árlega síðustu helgi júlímánaðar. Í vel yfir tuttugu ár hefur AOPA, sem er félag flugmanna og flugvélaeigenda, boðið krabbameinssjúkum börnum og foreldrum þeirra í flugferð á sumarhátíðinni. Flugið er hápunktur hátíðarinnar hjá mörgum gestum.

Valur Stefánsson flugmaður segir að AOPA, félag flugmanna og flugvélaeigenda, hafi í 20-25 ár boðið krabbameinssjúkum börnum og fjölskyldum þeirra í flug á einkavélum á sumarhátíð Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. „Þetta er órjúfanlegur hluti af sumarhátíðinni þeirra. Flugið byrjaði fyrir norðan í Hvammi í Vatnsdal. Við flugum einu sinni frá Selfossi en höfum verið í Múlakoti um langt skeið,“ segir Valur og bætir við að nú hafi hátíðargestir gist á tjaldsvæðinu í Múlakoti í fyrsta sinn í boði landeigenda og vonandi verði framhald þar á.
TF-GNA kom í óvænta heimsókn á sumarhátíðina. Börnin fengu að …
TF-GNA kom í óvænta heimsókn á sumarhátíðina. Börnin fengu að skoða þyrluna og búnað hennar.


„Ég fékk flugréttindi fyrir 17 árum og hef tekið þátt í þessu allar götur síðan. Það voru Maggnús Víkingur með tveimur g-um og Jón Karl Snorrason sem stóðu að þessu í upphafi. Þeir þekktu foreldra krabbameinsveiks barns og vildu létta börnum með krabbamein og fjölskyldum þeirra lífið á einhvern hátt.

Láta gott af sér leiða

Það voru hátt í 30 flugvélar sem flugu með börnin og fjölskyldur þeirra á laugardaginn. Þetta er orðið miklu stærra í sniðum en í upphafi. Það er svakalega gaman að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Valur. Hann segir að öll þau ár sem hann hafi tekið þátt í fluginu sé allt lagt til hliðar síðustu helgina í júlí. Hvort sem um er að ræða útilegur eða afmæli.

Alltaf er flogið á laugardegi og aðeins einu sinni hefur þurft að fresta því til sunnudags vegna veðurs.

Gestir skemmtu sér vel í bubblubolta. Nammi rigndi yfir svæðið …
Gestir skemmtu sér vel í bubblubolta. Nammi rigndi yfir svæðið úr lofti og Áttan hélt uppi fjörinu Ljósmynd/Gréta Ingþórsdóttir


„Það gefur okkur mikla ánægju að geta látið gott af okkur leiða. Þegar maður sér brosin á andlitum barnanna þá gefur það allt,“ segir Valur og bætir við að hann hafi flogið með eina hetju á laugardaginn, Kristján Bjarna Jakobsson, 13 ára. „Ég leyfði honum að fljúga sjálfum og brosið hans náði hringinn. Ég hitti hann síðar um kvöldið og þá náði brosið ennþá hringinn og það segir allt sem þarf.“

Flugið hápunkturinn

Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, segir margra ára hefð fyrir flugferðum á sumarhátíðinni en þetta sé í fyrsta skipti sem hátíðin fari öll fram í Múlakoti.

Ingó veðurguð stjórnaði söng og harðri keppni milli hátíðargesta.
Ingó veðurguð stjórnaði söng og harðri keppni milli hátíðargesta.


„Við höfum haft aðstöðu á mörgum góðum stöðum en þarna er aðstaðan frábær. Ef illa viðrar getum við verið inni í flugskýlinu með mat og dagskrá, “ segir Gréta.

Hún segir að yfir hundrað manns mæti á hátíðina að jafnaði.

Hátíðin hófst á föstudegi með hamborgaraveislu, en Matborðið hefur gefið hamborgara á grillið í mörg ár. Á eftir mætti hljómsveitin Áttan og skemmti gestum með stæl. Á laugardeginum var flugið og nammiregn. Bubbluboltar voru fengnir á svæðið og svo birtust óvæntir gestir; TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, sem var að koma úr sigkatlaskoðunarferð, lenti á svæðinu.

Kristján Bjarni Jakobsson, 13 ára, flaug sjálfur vél Vals Stefánssonar.
Kristján Bjarni Jakobsson, 13 ára, flaug sjálfur vél Vals Stefánssonar.


„Þeir leyfðu krökkunum að skoða þyrluna og mynda sig með áhöfninni. Um kvöldið mætti grillvagninn og Ingó veðurguð hélt uppi stuðinu eins og honum er einum lagið.“ Gréta segir að flugið sé hápunktur sumarhátíðarinnar og ótrúlega mikil upplifun fyrir þá sem eru að koma í fyrsta sinn. „Þeir trúa því ekki að þetta sé í boði. Fyrir suma er þetta upplifun sem þeir hafa ekki átt kost á áður og er algjört ævintýri,“ segir Gréta sem tekur það fram að félagar í AOPA hafi sýnt SKB mikla velvild. „Í fyrra buðu þeir öllum í bíó að sjá myndina Sully, um flugmanninn sem nauðlenti farþegaþotu á Hudson-ánni.“

Dýrmætur stuðningur

Það voru hátt í 30 flugvélar sem flugu með börnin …
Það voru hátt í 30 flugvélar sem flugu með börnin og fjölskyldur þeirra á laugardaginn


Gréta segir að samvera fólks sem sé í sömu sporum skipti miklu máli. Á sumarhátíðinni gefist gott tækifæri til þess að ræða við foreldra sem eru eða hafa verið í sömu sporum. „Vegna meðferða geta sum börn ekki tekið þátt í allri dagskránni. En börnin og fjölskyldur þeirra laga sig að aðstæðum,“ segir Gréta og tekur fram að félagið sé rekið af frjálsum framlögum og sjálfsaflafé. „Það er þessi dýrmæti stuðningur sem við fáum úr samfélaginu sem gerir okkur kleift að styðja við bakið á krabbameinssjúkum börnum og fjölskyldum þeirra,“ segir Gréta þakklát.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert