Flæddi víða í Breiðholti

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út á þrjá staði í Breiðholti í kringum hádegi í dag vegna gríðarlegs úrhellis sem olli flóði. Hafði talsvert regnvatn flætt inn í íbúðir og valdið tjóni. Voru tveir dælubílar sendir á svæðið, og greiðlega gekk að dæla vatni úr íbúðunum.

„Þetta var ægilegt,“ segir Sigurður Lárus Fossberg, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, en úrhellið varði aðeins í um korter til tuttugu mínútur. „Smá lækur varð að á og það flæddi upp úr niðurföllum,“ segir hann.

Olli úrkoman því að mikið flóð myndaðist á svæðinu, en fráveitukerfið virðist ekki hafa ráðið við úrhellið. „Þetta er mjög sérstakt,“ segir Sigurður, og bætir við að á þeim stöðum þar sem vatn hafði flætt inn hafi verið um töluvert magn að ræða. „Þar var fólk heima, en við vitum auðvitað ekki hvernig staðan er hjá fólki sem er ekki heima,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert