Grunnur til framtíðar

Aðlögun. Sigrún og Harpa með nýjum leikskólabörnum.
Aðlögun. Sigrún og Harpa með nýjum leikskólabörnum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Það eru stór skref fyrir foreldra að setja ung börn í leikskóla. Við upphaf leikskólagöngu er lagður grunnur að samstarfi foreldra og leikskóla. Góð aðlögun foreldra og barna í leikskóla skiptir miklu máli fyrir alla. Leikskólinn Akrar hefur lagt áherslu á þátttökuaðlögun með góðum árangri. Aðlögunin tekur þrjá daga. Á fjórða degi kveðja flest börnin foreldra sína tilbúin og örugg í leikskólann.

Akrar er leikskóli í Garðabæ sem tekinn var í notkun árið 2012. Í honum dvelja 96 börn frá eins árs til sex ára. Skólinn hefur frá stofnun lagt mikla áherslu á þátttökuaðlögun barna og foreldra í upphafi leikskólagöngu barns.

Sigrún Sigurðardóttir leikskólastjóri og Harpa Kristjánsdóttir deildarstjóri ræddu við blaðamann Morgunblaðsins um mikilvægi þátttökuaðlögunnar.

Allir taka þátt, meira að segja afarnir.
Allir taka þátt, meira að segja afarnir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Aðlögun barna í leikskólum hefur verið með misjöfnum hætti. Sú aðferð sem Akrar í Garðabæ nota hefur gengið mjög vel að sögn Hörpu. Hún segir að aðlögunin felist í því að foreldri eða foreldrar komi fyrst með börnum sínum hálfan daginn en viðveran lengist svo næstu tvo daga. Á fjórða degi er aðlöguninni lokið og undantekningarlítið gengur vel þegar barnið er skilið eftir án foreldra á fjórða degi. „Á meðan á aðlögun stendur taka foreldrarnir þátt í starfinu og börnin verða fyrr öruggari í þessu nýja umhverfi,“ segir Harpa.

Grunnur til framtíðar

Að sögn Sigrúnar leikskólastjóra er meginmarkið þátttökuaðlögunar að auka öryggi foreldra í leikskólanum. „Ef foreldrarnir eru öruggir verða börnin það líka. Foreldrar fá að kynnast starfsemi skólans og fá tilfinningu fyrir því hvernig dagurinn á deild barnsins gengur fyrir sig. Við þessa aðlögun myndast góð kynni milli starfsmanna og foreldra sem byggja grunn að góðu samstarfi til framtíðar,“ segir Sigrún og bætir við að börnin nái að aðlagast vel á þessum þremur dögum.

Allir í sama liði

Herdís Ómarsdóttir með þremur börnum sínum sem öll eru á …
Herdís Ómarsdóttir með þremur börnum sínum sem öll eru á leikskólanum Ökrum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Sigrún var með 15 ára reynslu sem leikskólastjóri í Reykjavík þegar hún tók við leikskólanum Akri í Garðabæ. Hún segir að strax í upphafi starfs Akra hafi verið lögð áhersla á þátttökuaðlögun foreldra og barna. Sigrún segir að ekki sé hægt að líkja þessari aðferð saman við það sem áður var gert. „Við náum miklu meiri tengingu við foreldrana sem koma á kaffistofuna og fá sér kaffi með okkur. Það er ekkert sem heitir við og þið. Allir eru í sama liði. Líka við sem erum að gæta gimsteina foreldranna.“ Harpa og Sigrún eru sammála um að hugmyndin að þátttökuaðlöguninni hafi þróast á leikskólum. Ekki sé hægt að setja eitthvert eitt nafn eða merkingu á þátttökuaðlögun. „Í starfi leikskólakennara fer einhver góð hugmynd af stað og hún þróast í takt við þarfirnar,“ segir Sigrún. Þær Harpa segja þátttökuaðlögunina gott hópefli sem skili dýpra sambandi milli foreldra, barna og starfsfólks. Þær eru ánægðar með þá þróun sem átt hefur sér stað að báðir foreldrar komi í ríkari mæli að aðlögun barna í leikskóla. Þær nefna sem dæmi að morguninn sem viðtalið var tekið hafi þrjú ný börn verið á einni deild í aðlögun og það séu feðurnir sem hafi mætt með þeim börnum. Aðspurðar segjast Harpa og Sigrún ekki hafa orðið varar við að foreldrar eigi í erfiðleikum með að komast frá vinnu vegna þátttökuaðlögunar.

Þátttökuaðlögun

Kátir krakkar í góða veðrinu á leikskólanum Ökrum.
Kátir krakkar í góða veðrinu á leikskólanum Ökrum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

» Byggir meðal annars á þeirri trú að foreldrar yfirfæri eigin öryggiskennd og forvitni í þessum nýju aðstæðum á börnin sín
» Með því að foreldrarnir séu þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það nám sem fram fer í leikskólanum.
» Þeir kynnast kennurunum, öðrum börnum og foreldrum.
» Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli aðlögunar er Öruggir foreldar = örugg börn.

Tengsl og samskipti verða betri

Gleði Ánægð börn hoppa og skoppa brosandi í leikskólanum Ökrum
Gleði Ánægð börn hoppa og skoppa brosandi í leikskólanum Ökrum Hanna Andrésdóttir

Herdís Ómarsdóttir er foreldri þriggja barna á leikskólanum Ökrum. „Ég er með þrjú börn á Akri; eins, þriggja og fimm ára. Þetta er æðislegur leikskóli. Ég hef samanburð því að dóttir mín fimm ára var í öðrum leikskólum áður,“ segir Herdís. Hún segir aðlögunarfyrirkomulagið á Ökrum mjög gott, bæði fyrir börnin og foreldranna.

„Við höfum skipst á að vera með börnunum í aðlögun og verið með þeim fyrstu þrjá daganna. Það er æðislegt að kynnast starfinu í leikskólanum, kennurunum, hinum börnunum og foreldrum þeirra.“

Herdís segir að hún hafi náð góðum tengslum við leikskólakennaranna á meðan á aðlögun stóð. „Hér eyðir maður tíma með kennaranum og samskiptin verða klárlega betri af þeim tengslum sem myndast í aðlöguninni,“ segir Herdís og bætir við að með þessu sé leikskólinn eins og eitt samfélag. Herdís segir það skipta miklu máli að báðir foreldrar taki þátt í aðlöguninni og kynnist starfseminni og starfsfólkinu. Vinnumarkaðurinn hefur mikinn skilning á því að foreldrar þurfi að taka þátt í aðlögun á leikskóla, að sögn Herdísar. „Með því að fá foreldra og börn saman í aðlögun verða bæði börnin og foreldrarnir öruggari þegar kemur að því að skilja barnið eftir á leikskólanum. Aðlögunin er fínasta hópefli, “ segir Herdís áður en hún fer aftur í salinn í aðlögun með yngsta barni sínu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert