Best að vera í sæmilegu jarðsambandi

Gísli Pálsson, mannfræðingur, lýsir bókinni sem tilraun með manninn og …
Gísli Pálsson, mannfræðingur, lýsir bókinni sem tilraun með manninn og plánetuna . Leiðarstefið er samspil manns og náttúru - jarðsambandið mbl.is/RAX

Í bókinni Fjallið sem yppti öxlum - Maður og náttúra fléttar höfundur saman fróðleik, vísindi og persónulegar minningar. Gísli Pálsson mannfræðingur stígur inn í eigin bók sem „ég-ið“; barnið og unglingurinn Gísli frá Bólstað sem og fræðimaðurinn. Vestmannaeyjar, jarðsamband fólks, umhverfisflóttamenn og vandinn sem við er að etja vegna loftslagsbreytinga og náttúruhamfara koma við sögu. Einnig mannöldin, eða öld auðmagnsins, sem hófst um miðja síðustu öld. Og fleira.

Bernskan horfin undir grjót og gjósku og orðin hluti jarðsögunnar, hugsaði Gísli frá Bólstað þegar hann heimsótti Vestmannaeyjar sumarið 1973 og staldraði við þar sem æskuheimili hans hafði splundrast í logandi hraunkviku 2. apríl sama ár. Á þeirri stundu, eftir fjögurra ára fjarveru, segir hann tómleikann hafa hellst yfir sig. Hann er heldur ekki frá því að örlað hafi á samviskubiti yfir að hafa verið víðs fjarri þegar Heimaeyjargosið hófst aðfaranótt 23. janúar 1973. Og að sjá fram á að geta ekki tekið þátt í björgunarstarfi, sem þegar var hafið og átti eftir að standa mánuðum saman.
Á Heimakletti. Gísli og kona hans, Guðný Guðbjörnsdóttir, ásamt vinafólki …
Á Heimakletti. Gísli og kona hans, Guðný Guðbjörnsdóttir, ásamt vinafólki sínu, Jóhannesi Þorsteinssyni og Valgerði Einarsdóttur sumarið 1973. „




Trúlega eru blendnar tilfinningar meðal Vestmannaeyinga þegar þeir minnast þessarar örlagaríku nætur og tímanna sem í hönd fóru, hvort sem þeir voru heima eða að heiman. Gísli frá Bólstað var í framhaldsnámi í Manchester á Englandi, en hann og Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, eru einn og sami maðurinn. Trúlega þekkja fleiri þann síðarnefnda og verk hans og kann að koma á óvart að hans nýjasta bók, Fjallið sem yppti öxlum – Maður og náttúra, er að hluta sjálfsævisöguleg. Enda hefur höfundurinn haft sína persónu lítt í frammi í fyrri verkum, annars vegar um Vilhjálm landkönnuð og hins vegar verslunarmanninn Hans Jónatan, eða í fræðilegum ritum og rannsóknum í áranna rás. Í nýju bókinni er hann aftur á móti „ég-ið“; barnið, unglingurinn og fræðimaðurinn.

Mesta ögrun samtímans

Gísli lýsir bókinni sem tilraun um manninn og plánetuna. „Leiðarstefið er samspil manns og náttúru – jarðsambandið. Um leið gagnrýni ég tvíhyggju sem stillir jörðinni og mannkyninu upp sem andstæðum. Bókin hverfist um svokallaða mannöld, jarðsamband, umhverfisflóttamenn og vandann sem að okkur steðjar vegna loftslagsbreytinga og náttúruhamfara, sem oft eru af mannanna völdum og mesta ögrun samtímans. Ég fjalla um nýja sýn á náttúruna og nýstárlega strauma í félags-, mann- og náttúruvísindum. Áður sögðu vísindin, þar á meðal mannfræðingar, að jörðin ætti sína sögu og mannkynið aðra. Núna blasir við að saga mannkyns er samofin sögu plánetunnar og markar nýtt skeið sem mun drífa fræðaheiminn sem og bókmenntir og listir áfram næstu áratugina. Til verður fullkomlega nýr heimur fyrir allt líf á jörðinni.“

Bólstaður. Húsið er alelda og eldtungur teygja sig út um …
Bólstaður. Húsið er alelda og eldtungur teygja sig út um þak og glugga. Ljósmynd/Eiríkur Þór Einarsson


Gísli útskýrir að hugtakið mannöld sé nýtt tímaskeið í jarðsögunni, sem fyrst hafi komið fram um miðja síðustu öld samfara nýtingu kjarnorkunnar, stóraukinni orkunotkun og neyslumynstri sem hafði í för með sér mengun og loftslagsbreytingar. Engu að síður hafi hugtakið ekki orðið þekkt fyrr en um aldamótin 2000. „Maðurinn er bókstaflega að skrifa sig í jörðina. Þeir sem fara að grafa eftir eitt til tvö hundruð ár munu sjá jarðlög með ummerkjum um athafnir okkar,“ segir Gísli og nefnir skaðvald eins og plast á láði og legi um ókomna tíð.

Falsfréttir og hagsmunaöfl

Hann er bjartsýnn þrátt fyrir alltumlykjandi falsfréttir sem hann segir runnar undan rifjum hagsmunaafla sem villa um fyrir fólki og koma í veg fyrir að hægt sé að miðla staðreyndum, t.d. um hlýnun jarðar. „Sumir tala fremur um mannöldina sem öld auðmagnsins. Bandaríkjaforseti og fylgismenn segja eldana í Kaliforníu, stormana í Vestur-Indíum og Flórída vera tilviljanakenndar sveiflur en ekki afleiðingar vaxandi iðnaðarframleiðslu, eins og þó er næsta pottþétt – og almenningur og stjórnmálamenn eru sem betur fer að gera sér grein fyrir.“

Í bókinni fléttar Gísli saman fróðleik, vísindi og persónulegar minningar. Hann kveðst nota sögu Íslands og Vestmannaeyja sem örheima utan um stærri hluti; mannlegt drama andspænis náttúruvá og ógnum lífríkisins. Aðspurður segir hann áhugann á umhverfismálum og náttúrunni eiga rætur að rekja til uppvaxtaráranna í nánd við eldfjöll, Heimaeyjargossins og Surtseyjargossins 1963, sem hann og aðrir Vestmannaeyingar sáu berum augum heiman frá sér. Eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 kveikti svo enn frekari áhuga.

Lykillinn. Það eina sem varðveittist frá Bólstað.
Lykillinn. Það eina sem varðveittist frá Bólstað.




„Ég átti einnig góðar samræður við móður mína skömmu áður en hún lést fyrir nokkrum árum og lærði mikið af þeim, meðal annars um bernskuna, unglingsárin og fólkið mitt í Eyjum. Allt þetta varð mér innblástur og hvati til að hefjast handa.“

„Banastund Bólstaðar“

En fleira kom til eins og einkunnarorð bókarinnar lýsa hvað best. Gísli sækir þau í Eitthvað á stærð við alheiminn eftir Jón Kalman og snýr upp á sjálfan sig. „Orðin eru eldsumbrot innra með honum, kvika sem verður að komast út.“

Þótt hann væri ekki einu sinni viss um að úr yrði bók, varði hann fjórum árum í að viða að sér efni. Ljósmynd af „banastund Bólstaðar“, sem hann hélt að hefði aldrei verið tekin, birtist skyndilega á Facebook og ýtti hressilega við honum. Síðastliðin tvö árin hefur hann svo setið við skipulagningu og skriftir.

„Ég fór sérstaklega að skoða heimildir um framvindu gossins og þá frumlegu og merkilegu tilraun að kæla hraun til að hafa áhrif á stefnu þess og forða þannig bæði húsum og höfninni frá að fara undir. Alls konar tilvistarspurningar komu upp í hugann, til dæmis velti ég fyrir mér hvort mitt gamla heimili, Bólstaður, stæði enn ef kæling hefði hafist fyrr með öflugum dælum. Sú aðgerð var raunar mjög dramatísk, enda fögnuðu menn ákaft þegar þeir töldu slaginn unninn og fóru í huganum að búa sig til heimferðar.“

Sjálfhverf boðflenna?

Kápa bókarinnar.
Kápa bókarinnar.


„Ég kom í heiminn í byrjun mannaldar, einn dimman vetrardag 1949, ekki langt frá gömlu eldfjalli, Helgafelli í Vestmannaeyjum.“ Þannig hefst kaflinn, Ofan á glóandi hraunpotti, framarlega í bókinni. Gísli hefur lúmskt gaman af að tengja fæðingu sína mannöldinni títtnefndu.

„Að sumu leyti finnst mér ég vera sjálfhverfur að fjalla um sjálfan mig og mínar rætur í bók um samspil manns og náttúru. Á móti kemur að ég fann hjá mér þörf til að gefa Eyjum eitthvað til baka fyrir að hafa fóstrað mig undir þessum öxlum. Ekki aðeins vafðist fyrir mér að stíga sjálfur beint inn í bókina, ef svo má segja, heldur efaðist ég um að ég réði við þetta bókmenntaform,“ viðurkennir Gísli og vísar í stef sem Halldórs Laxness vann með í sögum sínum: Plús Ex.

„Laxness sagði að höfundar skáldverka trönuðu sér fram í skáldskapnum, jafnvel þótt þeir vissu ekki af því, þeir væru hálfgerðar boðflennur. Núna er ég þeirrar skoðunar að nærvera höfundar sé bæði æskileg og heiðarleg jafnvel í vísindaverkum til þess að lesendur viti hvaðan höfundur er og fyrir hvað hann stendur.“

Að yppta öxlum

Úr því að Gísli minntist á fóstur undir öxlum er ástæða til að spyrja hvaða axlir hann eigi við og af hverju bókin heiti Fjallið sem yppti öxlum? „Mér finnst nafnið skondið, en það bara datt ofan í höfuðið á mér,“ svarar hann. Inntur nánari skýringa segir hann að svo hafi virst sem jörðin hafi byrjað að rifna í Axlarsteini, sögulegum steini í hlíðum Helgafells. „Löngu fyrir gos tóku menn eftir því að kringum steininn var hiti í jörðu og þar festi ekki snjó. Ég leik mér svolítið að því að persónugera fjall eins og oft hefur verið gert, til dæmis er sagt að fjöll hafi axlir eða kápu. Kannski var Helgafell bara að yppta kæruleysislega öxlum á meðan það setti allt í uppnám hjá fólkinu sem horfði upp á það gjósa – hver veit?

Lokaorð Gísla í Fjallinu sem yppti öxlum eru ekki sett fram í hálfkæringi. Ekki frekar en annað í bókinni ef út í það er farið: „Stærsti vandi mannkyns fyrr og síðar verður ekki leystur að hætti Eyjamanna í Heimaeyjargosinu. Það er enginn floti til að sigla með okkur brott, ekkert „fastaland“ í boði fyrir umhverfisflóttamenn framtíðarinnar – ekki í annað hús að venda. Best að vera í sæmilegu jarðsambandi.“

Framtíð mannsins

„Eyjamenn björguðu sér á einni nóttu með flotanum í land. Við getum hvergi farið. Breski eðlisfræðingurinn Stephen Hawking og fleiri vísindamenn halda því reyndar fram að framtíð mannsins sé á öðrum plánetum og að geimferðir og nýlendur utan okkar jarðar muni leysa vandann. Jafnvel þótt sá möguleiki væri fyrir hendi, hentaði hann aðeins broti mannkyns; auðkýfingunum. Því tel ég að við verðum að laga okkur að þeim aðstæðum sem jörðin býður upp á og leysa málin innanhúss, svo ég noti húslíkingu,“ segir Gísli að lokum.

Maður ypptir ekki öxlum. Mann setur hljóðan.

Mannlíf í Eyjum var í upplausn

„Um veturinn hafði ég fært í tal við kennara minn að mig langaði að skrifa lokaritgerð um mannlífið í Vestmannaeyjum, sérstaklega um nálægðina við hafið. Þetta þótti óvenjulegt viðfangsefni í mannfræðideild, sem einblíndi yfirleitt á hjarðmenn og bændur í Austur-Afríku, en samt kom það til greina. Nú varð ég að ýta þesari hugmynd til hliðar og snúa mér að öðru. Mannlíf í Eyjum var í upplausn og þessi upplausn freistaði mín ekki sem viðfangsefni; líklega vissi ég ekki hvernig ég átti að taka á því sem manneskja og sem mannfræðingur. Hefði mannfræðin nokkuð um slíka hluti að segja? Og hefði ég nokkuð að segja? Yrði ég ekki upptekinn af sjálfum mér og mínu fólki við þessar aðstæður?

Ný vitund

Mannaldarhugtakið er ekki hafið yfir gagnrýni og eflaust mun fólk lengi þrefa um það og rökræða og leita annarra kosta. Dómsdagsspár eiga sér langa sögu og nú sem fyrr er rétt að vera á varðbergi og halda sönsum. Sumir telja rétt að tala um öld auðmagnsins fremur en mannöld. Bent er á að þegar rætt er um að við berum ábyrgð á jörðinni okkar gleymist gjarna að sumir hópar hafa valdið meiri skaða en aðrir og mikilvægt sé að hafa í huga að iðnríkin, norðurhvelið, beri mun meiri ábyrgð á umhverfisvandanum en önnur lönd. Þótt líta megi svo á að hnattræn hlýnun sé glæpur gegn mannkyni sitja fórnarlömbin ekki við sama borð.

Flóttinn frá eldfjallinu

Eyjamenn, allir sem einn, voru orðnir flóttamenn, án jarðsambanda. Engin furða að óvissa væri um upphaf goss og tíminn á reiki; ýmist fleygði honum áfram eða hann stóð í stað. Nútímavísindi töluðu um „jarðfræðilegan tíma“, nánast óendanlegan tíma á mælikvarða tímaskeiða sem spönnuðu milljónir eða billjónir ára, en nú tók jarðsaga Heimaeyjar heljarstökk á örfáum mínútum eftir langt hlé. Líkt og hnötturinn allur í byrjun mannaldar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert