Tíu virk glæpasamtök starfandi hér

AFP

Brotum tengdum skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnabrotum, mansali og vændi, hefur fjölgað hér og vitað er um að minnsta kosti tíu hópa sem eru virkir í skipulagðri brotastarfsemi hér á landi og talið er að hópum sem lögregla kann ekki nægilega góð deili á hafi fjölgað nokkuð undanfarin ár. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Afbrotatölfræði lögreglu gefur ein og sér ekki nægilega glögga mynd af þeim brotaflokkum sem tengjast iðulega skipulagðri glæpastarfsemi, s.s. fíkniefnabrotum, mansali og vændi. Rannsóknir innan þeirra brotaflokka byggjast að verulegu leyti á frumkvæðisvinnu lögreglu sem aftur hefur áhrif á þær tölfræðilegu upplýsingar sem tiltækar eru.

Oft tengt löglegri starfsemi

„Skipulögð brotastarfsemi tengist auk þess í auknum mæli löglegri starfsemi og brotastarfsemin dulin með þeim hætti. Skipulögð brotastarfsemi er iðulega samofin löglegum rekstri fyrirtækja og mikilvægt er að rannsaka skattahluta brotastarfseminnar þar sem brotamönnum getur reynst erfitt að gera grein fyrir hagnaði, tekjum eða eignum sem aflað er með ólögmætum hætti. Upptaka ólöglegs ávinnings er úrræði sem margir innan lögreglu telja vannýtt.

Utan höfuðborgarsvæðisins eru samfélög almennt lítil og þéttofin þar sem persónuleg tengsl eru mikil og þekking á högum annarra íbúa almenn. Á hinn bóginn kunna einstaklingar í smærri samfélögum að tengjast stærri hópum og jafnvel hópum sem tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. Slík tilfelli eru lögreglu kunn.

Jafnframt kunna einstaklingar á landsbyggðinni að tengjast hópum sem einkum láta til sín taka í þéttbýli. Þetta getur t.a.m. átt við um fíkniefniviðskipti og ræktun og framleiðslu fíkniefna. Þessir einstaklingar geta þannig auðveldað skipulagðri brotastarfsemi að þrífast.

Fíkniefnaræktun á landsbyggðinni

Greiningardeild hefur í fyrri skýrslum sínum um skipulagða brotastarfsemi leitast við að vekja athygli á að dreifbýli og lítil löggæsla geti skapað afbrotahópum tækifæri t.a.m. á sviði ræktunar og framleiðslu fíkniefna.

„Þetta mat greiningardeildar hefur reynst rétt, líkt og dæmin sanna en á undanliðnum misserum hefur lögregla ítrekað stöðvað slíkar ræktanir á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni sem kom út í morgun.

Með fullar hendur fjár

Lögregla býr yfir upplýsingum og vísbendingum um hópa og einstaklinga sem eru umsvifamiklir á sviði fíkniefnaviðskipta. Sumir þeirra hafa fullar hendur fjár og tengjast lögmætum fyrirtækjum sem skapar færi á peningaþvætti.

Fíkniefnaneysla tengist í flestum tilfellum skipulagðri brotastarfsemi á einn eða annan veg. Framleiðsla, innflutningur, dreifing og sala fíkniefna er háð skipulagi og samstarfi margra þótt í undantekningartilfellum sé einn gerandi að verki.

Með fullar hendur fjár – einstaklingar sem tengjast lögmætum fyrirtækjum …
Með fullar hendur fjár – einstaklingar sem tengjast lögmætum fyrirtækjum sem skapar þeim færi á peningaþvætti. AFP

Vísbendingar eru um að innflutningur sterkra fíkniefna á borð við kókaín færist í vöxt. Á síðustu misserum hefur aukist til muna það magn MDMA (methylenedioxymethamphetamine) og kókaíns sem haldlagt hefur verið.

Mikið af sterku amfetamíni er á markaðnum og orðið hefur vart við metamfetamín. Framboð á kannabis er sem fyrr mikið og mikill fjöldi ræktana sem gerður hefur verið upptækur er til marks um að innlend framleiðsla leitast við að anna eftirspurn.

Sala og dreifing fíkniefna hefur í auknum mæli færst á samfélagsmiðla. Afskipti lögreglu í formi frumkvæðislöggæslu er takmörkuð vegna manneklu. Hér er um að ræða nýjan brotavettvang sem kallar á sérdeildir til þess að sinna net- og tölvubrotarannsóknum. Netrannsóknir (e. Internet investigations) og rannsóknir netglæpa (e. Cyber crime) krefjast sérhæfðra lögreglumanna og sérfræðinga en ekki hafa fengist fjárveitingar til þess að stofnsetja slíkar rannsóknardeildir.

Gott efnahagsástand kann að ráða einhverju um þær breytingar sem hér hafa verið raktar en jafnframt er sú staðreynd augljós að fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi hefur stækkað verulega á skömmum tíma. Við náttúrulega fjölgun þjóðarinnar bætist mikill fjöldi aðfluttra og ferðamanna. Spurn eftir fíkniefnum hefur að öllum líkindum aldrei verið meiri hér á landi.

Snúa aftur nokkrum dögum síðar

Lögreglan telur að smygl á fólki færist í vöxt og haldist m.a. í hendur við mikla fjölgun þeirra sem óska alþjóðlegrar verndar hér á landi. Þess þekkjast dæmi að einstaklingar frá löndum sem Útlendingastofnun skilgreinir sem „örugg ríki“ færi sér markvisst í nyt móttökukerfi um alþjóðlega vernd á Íslandi í þeim tilgangi að stunda hér „svarta atvinnu“ eða brotastarfsemi. Dæmi eru um að menn sem dvalist hafa hér á landi sem umsækjendur alþjóðlegrar verndar hafi stundað ólöglega starfsemi, „svarta atvinnu“ eða afbrot, og hafi, eftir að hafa verið neitað um vernd og vísað frá Íslandi, snúið aftur fáum dögum síðar og tekið upp fyrri ólöglega iðju.

Í skýrslu greiningardeildar frá 2015 var í kafla um horfur og framtíðarþróun varað sérstaklega við hættu á vinnumansali og vændi. Í skýrslunni sagði: „Vændi og mansal gætu aukist m.a. í tengslum við stóraukin umsvif í byggingariðnaði og ferðamannaþjónustu. Vöxtur í byggingariðnaði skapar hættu á ólöglegum innflutningi á verkafólki og dæmi eru um að viðkomandi þræli myrkranna á milli við slæm kjör. Dæmi eru um að brotamenn tengdir vinnumiðlunum eigi þátt í mansali með því að blekkja og misnota einstaklinga sem koma á þeirra vegum. Þá eykst hættan á að svört atvinnustarfsemi muni þrífast í tengslum við aukin umsvif í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.“ Þessi virðist því miður hafa orðið raunin, segir í skýrslunni nú.

Mansal í ýmsum greinum atvinnulífsins

Lögregla hefur sterkar grunsemdir um mansal í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins ekki síst þeim sem hafa vaxið hratt á undanförnum tveimur árum.

Vændisstarfsemi hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum og er þjónustan auglýst á vefsíðum og samfélagsmiðlum. Í skýrslum liðinna ára hefur greiningardeild ítrekað varað við því að þeir sem leiti alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og jafnvel kúgunum af ýmsum toga. Slík misnotkun er þekkt í nágrannaríkjum og tengist oft „svartri atvinnustarfsemi“.

Augljóslega er slík misneyting ekki bundin við þá sem óska alþjóðlegrar verndar. Þekkt er frá nágrannaríkjum að konur séu þvingaðar til að stunda vændi og að skipulagt vinnumansal fari fram innan „svarta hagkerfisins“.

Líkt og áður hefur verið bent á stendur lögreglan frammi fyrir nýjum verkefnum sem varða tölvubrot. Þau beinast jafnt gegn einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum. Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að brotum innan þessa umfangsmikla flokks fari fjölgandi. Rafrænn búnaður tengist með einum eða öðrum hætti stöðugt fleiri rannsóknum í nánast öllum brotaflokkum. Þörf er á fræðslu og sérhæfingu lögreglumanna/sérfræðinga lögreglu til að fást við þessar rannsóknir og fylgja þeim hröðu breytingum sem þar eiga sér stað.

Ljóst er að viðbrögð lögreglu vegna brota þurfa að vera samræmd, fagleg og fylgja skýrum verklagsreglum. Þannig má tryggja góða þjónustu og traust almennings að því gefnu að fjárveitingar leyfi að bætt sé við lögreglumönnum og sérfræðingum til að sinna frumkvæðislöggæslu á þessum sviðum.

„Lögreglu er kunnugt um glæpahópa sem stunda umfangsmikil fíkniefnaviðskipti og peningaþvætti sem m.a. fer fram með rekstri fyrirtækja. Hópar þessir fjárfesta í fasteignum og fyrirtækjum fyrir ágóða af fíkniefnasölu og búa yfir verulegum fjárhagslegum styrk.

Undir yfirskini löglegrar starfsemi geta þessir hópar nálgast ýmsa sérfræðiaðstoð til að fela ólöglegan ávinning. Hóparnir beita iðulega ofbeldi við innheimtu fíkniefnaskulda,“ segir í skýrslu ríkislögreglustjóra.

Það er mat lögreglu að útlagagengi vélhjólamanna á Íslandi með …
Það er mat lögreglu að útlagagengi vélhjólamanna á Íslandi með tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi sýni merki um aukna starfsemi hér á landi. Af vef Europol

Það er mat lögreglu að útlagagengi vélhjólamanna (e. Outlaw Motorcycle Gangs) á Íslandi með tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi sýni merki um aukna starfsemi. Hells Angels, Outlaws og Bad Breed eru þau samtök sem nú leitast einna helst við að skapa sér stöðu hér á landi.

Þrjú útlagagengi hið minnsta starfandi hér

Lögreglan hefur á undanliðnum árum lagt áherslu á að hefta umsvif slíkra gengja hér á landi í samræmi við stefnu ríkislögreglustjóra Norðurlanda. Sá árangur sem náðist vakti athygli utan landsteina og ljóst er að sá stuðningur, m.a. í formi fjármagns, sem þetta verkefni hlaut skipti sköpum. Nú sjást þess merki að samtök þessi hafi í hyggju að láta til sín taka á ný, segir enn fremur í skýrslunni.

Lögreglu er kunnugt um þrjú útlagagengi vélhjólamanna hið minnsta sem hafa alþjóðlegar tengingar og virðast hafa eflst nokkuð á undanförnum misserum. Þekkt er að skerist í odda með félögum í ólíkum gengjum og má í því efni nefna átök gengja á Norðurlöndum síðustu ár. Komið hefur til átaka milli útlagagengja vélhjólamanna hér á landi. Sumum þeirra tengjast menn með langan og alvarlegan brotaferil.

Fyrirliggjandi upplýsingar benda til vaxandi umsvifa vélhjólagengja hér á landi. Félagar í þeim tengjast margir fíkniefnasölu, handrukkunum og peningaþvætti auk þess sem vopnaburður skapar almenna samfélagsógn. Greiningardeild er ekki kunnugt um staðbundin afbrotagengi t.a.m. í tilteknum hverfum Reykjavíkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert