Þiggja formennsku í nefndunum þremur

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að öllu óbreyttu munu stjórnarandstöðuflokkarnir fallast á þá tillögu ríkisstjórnarflokkanna um að stjórnarandstaðan fari með forystu í þremur þingnefndum. Ekki liggur ljóst fyrir hvaða flokkur mun gegna formennsku í hvaða nefnd en að sögn Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Miðflokksins, mun það koma í hlut Miðflokksins, Pírata og Samfylkingarinnar, stærstu stjórnarandstöðuflokkanna.

Nefndirnar þrjár sem um ræðir eru stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Að öðru leyti liggur ekki fyrir að svo stöddu hvaða flokkar munu fara með formennsku í hvaða nefndum fyrir utan að Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, verður formaður fjárlaganefndar líkt og þegar hefur komið fram.

„Við hittumst þingflokksformennirnir og fórum yfir það. Að öllu óbreyttu þá munum við taka þessar nefndir en auðvitað ræddum við það aðeins hvort að þetta væru akkúrat þær nefndir sem stjórnarandstaðan vildi fá, en alla veganna að öllu óbreyttu tökum við þessar nefndir,“ segir Gunnar Bragi í samtali við mbl.is

„Þetta eru þeir flokkar sem eru stærstir og munu hafa fyrsta val um það að taka svona nefnd. Næsta sem gerist í þessu er að formenn stjórnarandstöðuflokkanna munu hittast og ræða það hver tekur hvaða nefnd, þá skýrist það.“

Ræðst á næstu dögum

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ýmislegt eigi eftir að ráðast áður en unnt sé að ganga frá skipan þingnefnda. Þegar mbl.is ræddi við Birgi var honum ekki kunnugt um hvort stjórnarandstaðan hefði tekið afstöðu hvað varðar formennsku í þeim þremur nefndum sem áður voru nefndar.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem svona í meginatriðum þarf að skýra er að hvaða leyti, eða hvort, stjórnarandstöðuflokkarnir fallast á þá hugmynd sem ríkisstjórnarflokkarnir lögðu fram varðandi formennsku í þremur nefndum, það á eftir að skýrast,“ segir Birgir. „Í framhaldi, þegar að þeir hlutir skýrast, þá er kannski hægt að klára restina, bæði þá varðandi formennsku, varaformennsku í nefndum og skipan nefndanna að öðru leyti,“ bætir hann við. Kjósa þarf í þingnefndir á þingsetningardag sem að öllum líkindum verður um miðjan þennan mánuð.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tekur í svipaðan streng og Birgir. „Það liggur fyrir að við erum með formennsku í fjárlaganefnd en það er ekki búið að ganga frá neinu öðru. Minnihlutinn er ekkert búinn að svara hvað hann vill, það á allt eftir að koma í ljós,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is, spurð um formannaskipan í nefndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert