Áramótabrennum á höfuðborgarsvæðinu aflýst

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að halda engar brennur um áramótin í ljósi aðstæðna.

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. 

Á sameiginlegum fundi allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu föstudaginn 11. desember sl. var tekin ákvörðun um að fella niður áramótabrennur sem hafa verið skipulagðar  á höfuðborgarsvæðinu.  Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að fjöldatakmarkanir vegna sóttvarnaraðgerða miðast við  10 manns og mikilvægt að sveitarfélögin hvetji ekki  til hópamyndunar, segir í tilkynningunni. 

„Það er ljóst að jól og áramót verða öðruvísi hjá okkur í ár  vegna COVID-19. Áramótabrennur draga að sér fjölda fólks og vilja sveitarfélögin sýna ábyrgð í verki og aflýsa því áramótabrennum í ár.

Við erum öll almannavarnir, höldum áfram að vinna að því saman að fækka smitum og komast á betri stað en við erum í dag. Höldum okkur við „jólakúlurnar“ okkar og forðumst mannmergð. Við getum gert þetta saman, samstaða er besta sóttvarnaraðgerðin,“ segir ennfremur. 

Athuga hvort unnt verði að hafa flugeldasýningar á vegum sveitarfélaga

Þá kemur fram á vef Garðabæjar, að Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna, hafi komið á fund bæjarráðs og farið almennt yfir stöðuna í baráttunni við farsóttina.

„Jón Viðar gerði grein fyrir undirbúningi bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu en verkefnið er samstarfsverkefni sveitafélaganna og heilsugæslunnar. Jón Viðar upplýsti að ákveðið hefur verið að veita ekki leyfi í ár fyrir áramótabrennu og til skoðunar er hvort unnt verði að hafa flugeldasýningar á vegum sveitarfélaganna,“ segir í fundargerðinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert