Ónæmiskerfið ekki bældara eftir Covid-19

Fólk er ekki endilega með Covid-19 þó það finni fyrir …
Fólk er ekki endilega með Covid-19 þó það finni fyrir kvefeinkennum. Samsett mynd

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segist sjá fjölgun Covid-greininga í PCR-prófum og klínískum greiningum um þessar mundir.

Um miðjan mánuð gaf embætti landlæknis út tilkynningu um stöðuna á Covid-19.

Fram kom að greiningum veirunn­ar sem veldur sjúkdómnum hefði fjölgað lítillega hérlendis í sumar, en um 30 tilfelli voru að greinast á viku.

Síðustu tvær, þrjár vikur

Guðrún segir að síðustu tvær eða þrjár vikur hafi embættið einnig tekið eftir fjölgun klínískra greininga á sjúkdómnum. Þegar um er að ræða klínískar greiningar þá er ekki framkvæmt PCR-próf, segir hún.

„Við gerum ráð fyrir að fólk hafi í flestum tilfellum tekið heimapróf, er þá með einkenni sem passa við Covid og þá er gerð klínísk greining,“ segir Guðrún og bætir við að alltaf sé hægt að greina sjúkdóma klínískt, án rannsókna.

„Þannig að ég held að þetta sé raunveruleg aukning á Covid. Alla vega á greiningum, bæði á sjúkrahúsum því þaðan koma PCR-prófin, en líka úr samfélaginu því þar eru þessar klínísku greiningar,“ segir Guðrún en flest PCR-prófin eru framkvæmd á sjúkrahúsum.

Ekki ástæða til aðgerða

Verða gerðar einhverjar ráðstafanir vegna fjölgunar Covid-smita?

„Tölurnar eru enn þá ekki það háar að það sé ástæða til sérstakra aðgerða umfram það sem við höfum áður sagt, að við ætlum að mæla með bólusetningu fyrir ákveðna hópa nú í haust,“ segir Guðrún.

Hún segir enn ekki alveg ljóst hvenær inflúensubóluefnið verði tilbúið, en gerir þó ráð fyrir að það verði í október, venju samkvæmt. Frekari leiðbeiningar verða gefnar út seinna, en Guðrún segir að ákveðnum hópum verði einnig boðið upp á örvunarbólusetningu fyrir Covid-19 á sama tíma.

Engin merki um aðrar öndunarfærasýkingar

Guðrún segir engin merki um inflúensuna eða aðrar öndunarfærasýkingar í kringum okkur. Spurð hvort fólk sé þá líklega með Covid-19, sé það lasið, segir hún það ekki endilega vera enda alltaf kvefveirur í gangi.

Finnið þið almennt fyrir meiri veikindum hjá fólki eftir faraldurinn?

„Nei það virðist ekki vera. Það eru engin merki um það, hvorki hérlendis né erlendis. Það eru ekki merki um það að veikindi séu eitthvað öðruvísi eða verri, eða að þessi afbrigði hafi valdið einhverjum nýjum eða öðrum einkennum.

Það hefur verið aukning á greiningum í einhverjum löndum í Evrópu, eins og er að gerast hér, en það er almennt ekki aukning á sjúkrahúsinnlögnum eða andlátum. Þannig að þó það hafi verið aukning á einhverjum tilfellum, þá virðist ekki vera aukning á alvarlegum tilfellum,“ segir Guðrún.

Þannig að fólk er almennt ekki með bældara ofnæmiskerfi eftir faraldurinn?

„Nei það virðist ekki vera. Hvorki það né að veikindin séu eitthvað alvarlegri, en við erum ekki komin í þennan klassíska flensutíma,“ segir Guðrún en flensutíminn byrjar venjulega ekki fyrr en í október.

Að lokum biður Guðrún fólk um að fylgjast með þróuninni og sérstaklega þeim hópum sem yfirvöld mæla með að þiggi örvunarbólusetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert