„Ég tala um örveruefnasúpu, ég tala ekki um myglu“

Kristín Sigurðardóttir læknir segir flókið að greina veikindi tengd óheilnæmu …
Kristín Sigurðardóttir læknir segir flókið að greina veikindi tengd óheilnæmu innilofti en að læknisfræðin hafi áður tekist á við erfiða sjúkdóma. mbl.is/Ásdís

„Við verðum að fara að hætta að framleiða hús sem standast ekki gæði og okkar aðstæður og líka hætta að framleiða veikt fólk,“ segir Kristín Sigurðardóttir, bráða- og slysalæknir.

Hún kveðst líta á rakaskemmdir í mannvirkjum sem raunverulegt hópslys enda séu umhverfismál heilbrigðismál.

Kristín ræddi skaðsemi rakaskemmda út frá sjónarmiði læknis á málþingi um skaðlegt inniloft, loftræsingu og heilsu í fyrirlestri í Háskólanum í Reykjavík á þriðjudag.

Ólíkari að innan en að utan

Í samtali við mbl.is kveðst Kristín telja brýna þörf að nota og kynna sameiginlegt greiningarnúmer innan heilbrigðiskerfisins svo læknar geti „eyrnamerkt“ tilfelli þar sem grunur liggi á um veikindi séu af völdum rakaskemmda.

Ekki sé til sameiginlegt númer eins og er og því erfitt að hafa yfirsýn yfir vandann, sem sé í þokkabót erfiður að greina.

Einkenni slíkra veikinda lýsi sér á mjög margvíslega vegu, enda séu ónæmiskerfi fólks fjölbreytt eins og fólk er flest.

„Ég segi gjarnan að við séum jafn ólík, ef ekki ólíkari, að innan sem að utan,“ segir Kristín og hlær.

Mygla bara ein afleiðing

Auk þessa bendir hún á að ekki sé einungis um að ræða myglu eina og sér, þó svo að í daglegu tali sé mygla orðin einskonar samnefnari fyrir rakaskemmdir í húsum.

Það er þó langt frá því að vera raunin að sögn Kristínar sem segir óteljandi þætti í nærumhverfi og híbýlum fólks geta haft áhrif á heilsu þeirra og ýmsar blöndur af örverum og efnum geti haft mismunandi áhrif, í mismunandi umhverfum, á mismunandi fólk.

„Ég tala um örveruefnasúpu, ég tala ekki um myglu,“ segir Kristín. 

„Mygla er bara ein tegund, við getum verið með bakteríur sem eru að vaxa í húsinu eða veirur. Við getum verið með geislabakteríur sem geta jafnvel skæðari.“ 

Rakaskemmdir og mygla hafa verið mikið til umfjöllunar á landinu …
Rakaskemmdir og mygla hafa verið mikið til umfjöllunar á landinu síðustu ár. Mynd/RB

Endurteknar útsetningar auki næmi og óþol

Hún segir málin flækjast enn meira sé fólk endurtekið útsett fyrir óheilnæmu innilofti á fleiri en einum stað og bendi rannsóknir til þess að einkennum fari versnandi því oftar sem fólk sé útsett fyrir örveruefnasúpum. 

Í kjölfarið geti jafnvel bæst við næmi fólks við enn fleiri örverum og efnum – og viðkomandi þróað með sér fjölefnaóþol. Fólk upplifi jafnvel að missa skyndilega þol fyrir efnum sem ekki höfðu nein áhrif áður eins og t.d. ilmvötnum og þvottaefnum.

Kristín segir þó almennt meira í umhverfi okkar í dag sem sé að ræsa ónæmiskerfi fólks enda spili umhverfi okkar heildrænt inn í heilsu okkar og sífellt fleiri kvarti undan höfuðverkjum, einkennum í öndunarfærum og astma.

Segir Kristín aftur á móti einnig augljóst að gæði híbýla fólks og vinnustaða þeirra spili þar inn í.  

Rakaskemmdir á Íslandi hópslys

„Ég er slysa- og bráðalæknir þannig ég horfi á þennan vanda með þeim gleraugum og ef ég bara miða við þessar fréttir sem ég vísa í, í fyrirlestrinum þá er þetta bara hópslys,“ segir Kristín sem sýndi ófáar umfjallanir fjölmiðla um rakaskemmdir í byggingum hinna ýmsu stofnanna, fyrirtækja og heimila á landinu. 

Það sé henni því óskiljanlegt að rannsóknarstofa byggingariðnaðarins hafi verið lögð niður á sínum tíma, enda sé í kjölfarið lítið sem ekkert eftirlit með þeim efnum sem séu notuð í byggingu mannvirkja. 

Það sé að hennar mati mikilvægt að huga að forvörnum og því að nota rétt efni sem henti til húsasmíða hér á landi. Til þess að tryggja slíkt þurfi raunverulegt eftirlit af hálfu óháðra aðila, líkt og rannsóknarstofa byggingariðnaðarins sinnti á sínum tíma og kenna niðurstöður rannsókna þeirra í byggingarfræði hér á landi. 

Alveg eins og að byggja ekki yfir jarðsprungur

„Stundum er verið að byggja með efnum sem er vottuð í allt öðru loftslagi,“ segir Kristín og ítrekar mikilvægi þess að huga að því að nota rétt byggingarefni heilsu og öryggis fólks vegna.

„Við verðum að læra af reynslunni og miða við okkar aðstæður, alveg eins og með að byggja ekki yfir sprungur og byggja með tilliti til jarðskjálfta.“

Með tilliti til innilofts sé mikilvægt að huga að því hvaða efni séu notuð en einnig beri að hafa í huga að með raka blotni byggingarefnin, sem geti losað um ýmis efni eins og lím, formaldehýð og annað slíkt sem séu ekki heilnæm.

„Svo ef það er ekki hreinsað strax og þurrkað þá náttúrulega fara örverur að vaxa í þessum efnum,“ segir Kristín sem segir slíkt jafnvel gerast í nýjum byggingum.

„Þó fólk sé ekki einu sinni orðið lasið þá er það náttúrulega bara svo mikið fjárhagslegt tjón að þurfa að endurgera. Og þá er það líka bara svo mikið bruðl fyrir umhverfið okkar að vera að henda út næstum því nýju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert