Um hundrað látið lífið vegna alvarlegra atvika

Tæplega hundrað hafa látið lífið á síðustu þremur árum.
Tæplega hundrað hafa látið lífið á síðustu þremur árum. mbl.is/Unnur Karen

Á síðustu þremur árum hafa tæplega hundrað manns látið lífið vegna alvarlegra atvika í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Síðasta árið hefur tilkynningum um alvarleg atvik fjölgað um fimmtung saman borið við árið á undan. 

Vísir greinir frá og byggir umfjöllunina á upplýsingum frá Landlæknisembættinu.

Embættið heldur utan um og fylgist með rannsóknum óvæntra atvika sem verða við heilbrigðisþjónustu, en lögum samkvæmt ber að halda utan um umrædd atvik. 

91 látið lífið á síðustu árum 

Þessi óvæntu atvik eru skilgreind í lögum um landlækni og lýðheilsu sem atvik sem valdið hafa, eða hefðu geta valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að upplýsa skuli sjúkling um óvænt atvik án ástæðulausra tafa, auk þess sem upplýsa skuli nánustu aðstandendur þegar það á við. 

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Vísi barst frá Landlækni urðu sextíu alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu á síðasta ári, 47 árið 2022 og 64 árið 2021. Af þessum alvarlegu atvikum hafa árlega verið um og yfir þrjátíu dauðsföll síðustu þrjú ár. 

Þá segir að samtals hafi 91 sjúklingur látist eftir alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu á síðustu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert