Ánægður með undirtektir unga fólksins

Andri Snær Magnason.
Andri Snær Magnason. mbl.is/Eggert

Andri Snær Magnason segist afar ánægður með þann hljómgrunn sem hugmyndir sínar hafi fengið á meðal yngstu kynslóðarinnar í kosningabaráttunni. Undanfarnar vikur hafi verið ánægjulegar og lærdómsríkar. Hann saknaði hins vegar raunverulegs samtals á meðal frambjóðenda um framtíð og eðli forsetaembættisins. Það hafi aldrei átt sér stað.

Andri Snær hlaut alls 26.037 atkvæði, eða 14,04% greiddra atkvæða, í forsetakosningunum í gær. Hann átti mestu fylgi að fagna í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður, þar sem hann fékk 23,8% at­kvæða.

Andri Snær óskar Guðna til hamingju með sigurinn og velfarnaðar í starfi. Hann segist hafa átt gott samstarf við eiginkonu Guðna, Elizu Reid, og veit að þar er kjarnakona á ferð. Hún hafi meðal annars unnið ötullega að því að stækka tengslanet íslenskra bókmennta. Úrslitin séu ekki óhagstæð að neinu leyti.

Hann segir gærkvöldið hafa verið ótrúlega ánægjulegt. „Ég lagði af stað með nokkuð skýrar hugsjónir í farteskinu, svo sem um tungumálalæsi, náttúruvernd heima og erlendis, lýðræðishugmyndir og jafnréttismál, og ég er afar ánægður með að þær hafi fengið góðan hljómgrunn, að minnsta kosti samkvæmt mælingum, hjá yngstu kynslóðinni.

Í kosningapartíinu í nótt var enginn sem vorkenndi mér eða reyndi að hughreysta mig. Allir óskuðu mér til hamingju. Þetta var sigurkosningahátíð alveg til klukkan fjögur í nótt. Og fólk streymdi inn. Í venjulegum framboðum, sem fjalla um persónu einstaklinga, eru yfirleitt flestir farnir eftir fyrstu tölur og partíið breytist í líkvöku. En hjá mér var stuð langt fram á nótt,“ segir Andri Snær.

„Mér þykir mjög vænt um að sjá svona háleitar hugsjónir ná eyrum unga fólksins. Það eitt er í sjálfu sér framboðsins virði.“

Andri Snær og eiginkonan hans, Margrét Sjöfn, kusu í Menntaskólanum …
Andri Snær og eiginkonan hans, Margrét Sjöfn, kusu í Menntaskólanum við Sund í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framtíðarsýnin aldrei rædd

Hann segir að draga megi ýmsan lærdóm af kosningabaráttunni, til að mynda hvað sjónvarpið er öflugur miðill. 

„Það var í raun ekki fyrr en í gærkvöldi, að kosningum loknum, að ég, Guðni, Halla og Davíð sátum í sæmilega þægilegu setti og gátum rætt innbyrðis, í stað þess að þurfa að svara spurningum í einhverri skipulagðri röð og reyna á hæfileika okkar til þess að grípa orðið. 

Ég saknaði þess í baráttunni að við náðum aldrei að eiga samtal við nýkjörinn foresta um framtíðina og hver hans sýn væri. Eða hann að ræða við mig á móti.

Mér finnst sérkennilegt að hafa farið í gegnum svona mikilvæga, stóra og sjaldgæfa baráttu án þess að þetta samtal hafi átt sér stað.“

Hann bendir meðal annars á að sjálfur hafi hann lagt fram skýra sýn um loftslagsmál sem Guðni hafi vísað af dagskrá því það ætti heima undir embætti forseta. „Þetta verður eitt stærsta hlutverk forseta Íslands á næstu fjórum árum og því fannst mér það sérstakt þegar því var einfaldlega vísað af dagskrá.“

Fylgisaukning Höllu ekki óvænt

Hann nefnir einnig að það hafi komið honum á óvart hve lágt fylgi Höllu hafi verið framan af. Fylgisaukning hennar á undanförnum dögum hafi því ekki verið óvænt og í raun sýnt mátt myndavélanna. „Og ég dáist að henni að hafa þraukað í gegnum eyðimörkina þangað til hún fékk aðgang að þjóðinni. Ég vissi alltaf sjálfur að hún væri mjög frambærileg og öflug.

En það að fara af stað í kosningabaráttu og öflugustu fjölmiðlarnir ná einhvern veginn ekki utan um hana gerir hlutina kannski erfiðari og þá á ég sérstaklega við fólk eins og Höllu.“

Of mikill tími fór í aukaatriði

Guðni og Andri Snær bera saman bækur sínar.
Guðni og Andri Snær bera saman bækur sínar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almennileg umræða á milli efstu frambjóðenda hafi aldrei átt sér stað. Þau málefni sem hann hafi lagt áherslu á hafi vissulega litað kosningabaráttuna og einhver þeirra komist í umræðuna. „Og ég held að það hafi skilað einhverju. En þessi kjarnahugmynd um forsetann, hvað hann ætlar að segja út á við, hvaða vettvang hann hyggst búa til og svo framvegis, komst aldrei almennilega til umræðu.“

Of mikill tími hafi farið í að ræða Icesave og aukaatriði um þorskastríðin.

Andri Snær segir að til framtíðar mætti huga að því að auka þann fjölda meðmælenda sem forsetaframbjóðendur þurfa að afla til að framboð teljist löglegt. Koma þurfi í veg fyrir að þröskuldurinn sé of lágur. „Eins og við sáum með raunfylgi margra frambjóðenda sem tóku mjög mikið pláss í umræðunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert