Framúrskarandi textar prýða nú mjólkurfernur MS

Gréta Björg Jakobsdóttir segir að textarnir hafi verið eins ólíkir …
Gréta Björg Jakobsdóttir segir að textarnir hafi verið eins ólíkir og þeir voru margir og á meðan sumir voru uppfullir af bjartsýni, gleði, húmor og draumum einkenndi einmanaleiki, sorg og ofbeldi aðra. Samsett mynd

Mjólkursamsalan hefur um langa hríð lagt íslenskri tungu lið og nýtt fjölmörg tækifæri til að vekja athygli á fjölbreytileika móðurmálsins og hve gaman það getur verið að leika sér, skapa og nota tungumálið. Mjólkurfernurnar eru sterkur og skemmtilegur miðill til að koma jákvæðum skilaboðum á framfæri og efnið sem komið hefur fyrir sjónir almennings er afar fjölbreytt og margir komið að því verki. Má þar nefna texta um örnefni Íslands þar sem tengd voru saman landafræði, íslenskt mál og orðsifjar, bókmenntatextar, barnabókmenntir, gátur og orðatiltæki svo eitthvað sé nefnt.

Sköpunargleðin virkjuð hjá nemendum

Á haustmánuðum var textasamkeppnin Fernuflug endurvakin og nemendur í 8.-10. bekk hvattir til að velta fyrir sér spurningunni ‚Hvað er að vera ég?‘ en keppnin var síðast haldin 2006. Rúmlega 1.200 textar bárust í keppnina og óhætt að segja að sköpunargleðin hafi verið virkjuð.

„Við vorum tvær sem lásum alla 1.200 textana og nutum þeirra forréttinda að fá að skyggnast inn í hugarheima unga fólksins okkar. Textarnir voru eins ólíkir og þeir voru margir og á meðan sumir voru uppfullir af bjartsýni, gleði, húmor og draumum einkenndi einmanaleiki, sorg og ofbeldi aðra,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri MS.

Sérstakur verndari keppninnar var Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og átti hann sæti í dómnefnd ásamt fulltrúum frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Íslenskri málnefnd, markaðsdeild MS og auglýsingastofunni EnnEmm. 

48 framúrskarandi textar valdir

Að lokum voru 48 framúrskarandi textar valdir til birtingar á fernunum og af þeim voru þrír textar verðlaunaðir sérstaklega með veglegri peningagjöf og mun verðlaunaféð án efa efla og styrkja höfundana til frekara náms. 

  1. sæti - Hekla Dís O‘Shea, Árbæjarskóla
  2. sæti - Torfhildur Elva Friðbjargar Tryggvadóttir, Glerárskóla
  3. sæti - Rafn Ibsen Ríkharðsson, Heiðarskóla

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að textarnir og myndirnar á fernunum höfði til fólks á öllum aldri og efnið sé aðgengilegt börnum frá 10 ára aldri. „Grafíski hönnuðurinn Elías Rúni hjá EnnEmm á heiðurinn að myndlýsingunum við textana 48 og óhætt að segja að honum hafi tekist einstaklega vel til með krefjandi verkefni sem þurfti að vinna bæði hratt og vel á afar stuttum tíma,“ segir Gréta og bætir við: „Í textum grunnskólanemanna heyrast nýjar raddir og bindum við vonir við að þeir veki lesendur til vitundar um hvernig viðhorf okkar til málsins hafa áhrif á það hvernig það dafnar, en með því að sem flest skrifi, tali og skapi á íslensku á tungumálið okkar bjarta framtíð.“

Nánari upplýsingar um Fernuflug er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert