Fannar Óli og Kristjón með Sýru á markaðinn

Kristjón Hjaltested og Fannar Óli Ólafsson er stofnendur Sýru sem …
Kristjón Hjaltested og Fannar Óli Ólafsson er stofnendur Sýru sem framleiðir kimchi sem er nýtt á markaðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Fannar Óli Ólafsson og Kristjón Hjaltested frum­kvöðlar fengu styrk frá Ný­sköp­un­ar­sjóði Haga, Upp­sprett­unni fyr­ir fyr­ir­tækið sitt Sýru sem framleiðir kimchi sem er nátttúralega súrsað og auðugt af góðgerlum sem styðja við skilvirka meltingu og öflugra ónæmiskerfi.

Kristjón og Fannar Óli eru stofnendur Sýru þar sem þeir ná að sameina styrkleika sína með frábærri útkomu. Kristjón er tónlistarmaður og kokkur sem hefur starfað í veitingabransanum síðastliðin 10 ár og rekur Veitingastofu Hringsins inni á Barnaspítalanum við Hringbraut. Fannar Óli er matgæðingur og sameindalíffræðingur með MSc gráðu í líf- og læknavísindum, og starfar við gæðaeftirlit hjá líftæknilyfjafyrirtækinu Alvotech.

„Sigfús Jóhann Árnason kvikmyndagerðarmaður kemur svo inn í þetta verkefni með okkur og sér um markaðsmál og margmiðlunarefni. Sigfús er einn besti smakkari landsins og er með sérstaklega þróaða bragðlauka sem hefur reynst okkur vel,“ segir Fannar.

Byrjuðu heima í sitthvoru lagi

Hvaðan kemur hugmyndin að vörunni og hvernig þróaðist hún áfram?

„Við vorum djúpt sokknir í að gera kimchi heima hjá okkur í sitthvoru lagi sem þróaðist síðan út í að við fórum að gera það saman. Svo þegar vinirnir voru farnir að spyrja ítrekað um að fá að kaupa af okkur kimchi ákváðum við bara að fara alveg út í þetta. Okkur fannst vanta „gourmé kimchi á markaðinn og höfum verið að þróa þetta síðan 2021,“ segir Fannar Óli.

Aðspurður segir Fannar sérstaða kimchi sé sú að það sé bæði gott í munn og maga. „Það er frábær viðbót við alla rétti, færir máltíðina á annað plan. Hægt er að borða með núðlum, taco, vefjum, hamborgara, fisk og kjöti. Kimchið okkar er náttúrulega súrsað í tvær vikur en við það þróast bragðið og matvaran auðgast af góðgerlum sem styðja við skilvirka meltingu og öflugt ónæmiskerfi.“

Kimchi-ið er náttúrulega súrsað í tvær vikur en við það …
Kimchi-ið er náttúrulega súrsað í tvær vikur en við það þróast bragðið og matvaran auðgast af góðgerlum sem styðja við skilvirka meltingu og öflugt ónæmiskerfi.“ mbl.is/Árni Sæberg

Nafnið tilvitnun í menningarsögu Íslendinga

Nafnið vekur líka eftirtekt er saga bak við nafnið?

„Sýra er tilvitnun í menningarsögu Íslendinga. Sýra kallaðist drykkur úr súrsaðri mysu sem þótti hin mesta heilsubót og var á tímum algengasti drykkur landsmanna samkvæmt Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Fyrir utan það að okkur finnst nafnið geggjað og að það sé vel viðeigandi fyrir súrmeti, þá er orðið hlaðið alls konar merkingum sem nær athygli fólks í þokkabót,“ segir Kristjón og brosir.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að hafa fengið styrkinn frá Uppsprettu?

„Það að hafa fengið styrkinn frá Uppsprettunni hefur verið mikil hvatning og stökkpallur fyrir okkur til að koma vöru okkar í sölu. Við erum þeim afar þakklátir og þetta samstarf byrjar ótrúlega vel,“ segja þeir félagar í einum kór. Fannar Óli bætir við að þetta hefðu þeim ekki tekist að framkvæma án aðkomu Eldstæðisins. „Við viljum líka þakka henni Evu Michelsen fyrir alla þá hjálp sem hún hefur veitt okkur. Hún stofnaði Eldstæðið sem er deilihagkerfiseldhús fyrir smáframleiðendur eins og okkur. Við hefðum aldrei getað komið okkar vöru á markað án þess að hennar þjónusta væri í boði. Hún gefur endalaus ráð og hefur hvatt okkur áfram.“

Komið í sölu nú þegar

Hvenær eigum við eiga von á því að geta keypt vöruna í verslunum?

„Sýra - Kimchi er komið í sölu í öllum verslunum Hagkaups fyrir utan í Spönginni,“ segir Fannar Óli og bætir við að þeir séu afar spenntir að sjá viðtökurnar við vörunni.

Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur þessum vettvangi?

„Okkur langar að þróa fleiri vörur, selja kimchi erlendis og opna gróðurhús. Við erum stöðugt að þróa nýjar vörur enda eru möguleikarnir endalausir með súrsun og gerjun. Við stefnum á að koma nýjum vörum á markað 2025,“ segir Kristjón horfir björtum augum til framtíðarinnar.

Steiktur fiskur í raspi og kimchi góð samsetning

Eru þið til í að svipta hulunni af uppskrift þar sem kimchi kemur við sögu?

„Við setjum kimchi á allt. Þið getið séð hugmyndir af því hvernig þið getið notað Kimchi inn á Instagram síðunni okkar hér undir “Kimchi Réttir“. Einnig langar okkur að sjá hvernig þið notið kimchi svo þið megið endilega deila ykkar uppskriftum með okkur þar.

Ein af okkar uppáhaldsuppskriftum þar sem kimchi kemur við sögu er að bjóða upp á kimchi-ið með steiktum fiski í rasp, borinn fram með sellerírótar púrré, ofnbakaðri sellerírót, karamelliseraðum lauk og kimchi.

Við elskum að fara lengri leiðina og höfum gert útgáfu af þessum hefðbunda íslenska rétti. En að sjálfsögðu er hægt að hafa uppskriftina klassíska. Fiskur í raspi, soðnar kartöflur, karamelliseraður laukur og kimchi. Það eina sem þarf er að bæta við er kimchi ofan á.“

Steiktur fiskur í rasp, borinn fram með sellerírótar púrré, ofnbakaðri …
Steiktur fiskur í rasp, borinn fram með sellerírótar púrré, ofnbakaðri sellerírót, karamelliseraðum lauk og kimchi. Ljósmynd/Sýra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert