Castro segist reiðubúinn að falla með vopn í hönd

Fidel Castro baðar út höndum til að leggja áherslu á …
Fidel Castro baðar út höndum til að leggja áherslu á mál sitt í fimm klukkustunda langri ræðu sem hann flutti við lok fundar andstæðinga Fríverslunarsamtaka Ameríkuríkja (FTAA) í Havana. AP

Fidel Castro, forseti Kúbu, segist reiðubúinn að falla með vopn í hönd reyni Bandaríkjamenn innrás í landið. Sakaði hann stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta um að hafa lagt á ráðin með útlægum Kúbumönnum í Miami í Flórída um að drepa hann.

„Við vitum að Bush samdi um það við mafíuna í Kúbversk-bandarísku samtökunum að ég yrði drepinn. Ég veit það og ber þær sakir á hann,“ sagði Castro á fundi, sem andstæðingar FTAA, Fríverslunarbandalags Ameríkuríkja, efndu til í Havana, en um eittþúsund manns frá 32 ríkjum sóttu fundinn.

Castro talaði stanslaust í fimm klukkustundir við lok fundarins og varði mestum tíma í að fjalla um „stríðsæsingar“ Bandaríkjamanna. Byltingarforinginn kvaðst ekki dauður úr öllum æðum þótt bandarískir ráðamenn kynnu að halda annað.

„Þessi flón ættu ekki að halda að við séum að sóa tíma okkar . . . Þessi þjóð gefst aldrei upp, hún leggur aldrei niður vopn sín. Mér er sama hvernig ég dey en ég er sannfærður um að geri þeir innrás, mun ég berjast og falla með byssu í hendi," sagði Castro við dúndrandi lófatak fundarmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert