Kona krefst skaðabóta fyrir að vera svívirt og flengd á vinnustað

Kona ein í Bandaríkjunum hefur lögsótt fyrirtæki sem hún vann eitt sinn hjá, fyrir að leyfa yfirmanni hennar að flengja hana frammi fyrir öðrum starfsmönnum. Flengingin var hluti af starfsmannaátaki sem auka átti samheldni meðal þeirra, en konan krefst 1,2 milljóna dollara í skaðabætur eða um 90 milljóna króna.

Forsaga málsins er sú að fyrirtækið sem hún vann hjá, Alarm One, efndi til samkeppni meðal söluhópa hjá fyrirtækinu um hver þeirra næði mestri sölu og var þeim sem töpuðu refsað á ýmsan hátt. Má þar nefna flengingar með skiltum keppinauta fyrirtækisins, tertum var kastað í andlit þeirra, starfsmönnum gefinn barnamatur, þeir látnir ganga með bleiu og flengdir.

„Engin miðaldra kona með réttu ráði vill láta stilla sér upp frammi fyrir hópi ungra manna, sýna á sér rassinn, láta flengja sig og svívirða og láta svo segja sér að það sé allt gert með það fyrir augum að auka sölu og hvetja starfsmenn til dáða,“ sagði lögfræðingur konunnar í seinustu varnarræðu sinni. Lögfræðingar fyrirtækisins segja átakið hafa náð jafnt yfir karla sem konur. Fyrirtækið hætti starfsemi árið 2004 eftir að kona sem þar starfaði meiddist í svipuðu átaki og kærði það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert