Einar K. Guðfinnsson: Skólagjöld í auknum mæli óhjákvæmileg

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, segist telja að upptaka skólagjalda í mun meira mæli en verið hefur, sé óhjákvæmileg, vegna stóraukinnar þátttöku fólks í háskólanámi, en Einar ræddi um skólagjöld og fleiri mál á fundi í Viðskiptaháskólanum á Bifröst í gær. Einar segir að um leið og menn hugi að því þurfi að skoða með hvaða hætti Lánasjóðnum og öðrum aðferðum sé beitt, til þess að tryggja jafnrétti til náms. „Þetta er hins vegar umræða sem er komin mjög skammt á veg en ég er sammála því sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur sagt, að þetta sé mál sem þarf að skoða hispurslaust og án fordóma. Hún hefur átt frumkvæði að því og ég styð það,“ segir Einar.

Aðspurður um hvort skólagjöld eigi að vera jafnhá eftir því hvaða nám fólk leggur stund á segist Einar ekkert vilja fullyrða um það, enda eigi eftir að ljúka þeirri umræðu.

Einar segir jafnframt að Viðskiptaháskólinn á Bifröst beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að fjárframlögum til rannsókna og segist Einar telja að rétta þurfi hlut háskólans á Bifröst og annarra slíkra skóla á þessu sviði.

Einar segist vilja benda á að að sú staða sé uppi að Bifröst og aðrir háskólar hafi verið að koma inn með öflugri hætti en áður en hafi setið eftir hvað varðar aukningu á rannsóknarfé. Segir Einar að þetta komi kannski ekki á óvart þar sem uppbygging í þessum skólum hafi verið mjög hröð.

Einar segist telja að uppbyggingin á Bifröst og víðar í nýjum háskólum í landinu sé gríðarlega þýðingarmikil. „Það er engin alvöru háskólastarfsemi sem ekki styðst við rannsóknir og því tel ég forsendu fyrir áframhaldandi sókn Viðskiptaháskólans á Bifröst að skólinn fái aukið rannsóknarfé,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert