Mannfall í átökum í borginni Najaf í Írak

Liðsmenn Moqtada al-Sadrs í Najaf.
Liðsmenn Moqtada al-Sadrs í Najaf. AP

Írösk yfirvöld segja að minnsta kosti 56 Írakar hafi fallið og 50 særst í átökum í landinu á síðasta sólarhring, þar af hafi 49 fallið og 27 særst í borginni Najaf. Yfirvöld hafa ekki greint frá því hvort um væri að ræða óbreytta borgara eða liðsmenn Mehdi-hersins, liðsmanna klerksins Moqtada al-Sadrs, sem hafa hertekið Imam Ali moskuna. Bandaríski herinn telur að 30 liðsmenn Mehdi-hersins hafi fallið yfir helgina. Hins vegar hefur ekkert mannfall orðið í bandaríska hernum, að sögn CNN.

Átök héldu áfram milli íraskra hermanna og bandaríska hersins annars vegar og uppreisnarmanna í Mehdi-hernum hins vegar fyrir utan Imam Ali moskunni snemma í morgun. Bandaríski herinn gerði meðal annars árásir úr lofti á stöðvar uppreisnarmanna. Fulltrúar al-Sadr hafa heitið því að yfirgefa moskuna eins fljótt og auðið er, en Ali al-Sistani, trúarleiðtogi sjíta í Írak, hefur ekki viljað taka við lyklavöldum í moskunni fyrr en búið væri að leggja niður vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert