26 látnir eftir sprengingar í Bagdad

Systur Safa Mahmmod, íraskrar lögreglukonu sem fórst í einu tilræðanna …
Systur Safa Mahmmod, íraskrar lögreglukonu sem fórst í einu tilræðanna í Bagdad í morgun, gráta utan við líkhús í borginni. AP

Að minnsta kosti 26 manns eru látnir eftir fjögur sprengjutilræði í Bagdad höfuðborg Íraks í dag að því er Reuters greinir frá. Bandaríkjaher sagði að tveir Írakar hefðu farist í fyrsta tilræðinu, en þar var um að ræða bílasprengju sem sprakk utan við ástralska sendiráðið í miðborg Bagdad. Um hálfri klukkustund síðar sprakk svo önnur bílasprengja í nágrenni við sjúkrahús og lögreglustöð í borginni og fórust 18 manns í henni, þar af fimm íraskir lögreglumenn.

Þriðja bílasprengjan sprakk í námunda við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad og varð hún tveimur íröskum hermönnum að bana. Í fjórðu sprengingunni fórust tveir almennir borgarar og tveir hermenn, en hún var sprengd nálægt herbúðum, að sögn Bandaríkjahers.

Írösk lögregla sagði að sprengja hefði einnig sprungið við banka í Bagdad og hefðu lögreglumenn sem þar voru staddir til þess að sækja laun sín, verið skotmörk tilræðismanna. Ekki er ljóst hvort þetta tilræði er eitt af þeirra fjögurra sem Bandaríkjaher greindi frá að gerð hefðu verið. Allmargir særðust í sprengingunum. Embættismaður í ástralska sendiráðinu sagði að tveir ástralskir hermenn hefðu særst í tilræðinu við sendiráðið, en þeir væru þó ekki þungt haldnir.

Uppreisnarmenn í Írak hafa gert fjölmargar árásir á íraska hermenn og lögreglu undanfarið, en árásirnar eru gerðar í því skyni að spilla fyrir kosningum sem fram fara 30. janúar í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert