Ekkert lát á blóðbaðinu í Írak

Frá einum tilræðisstaðanna í Írak í morgun.
Frá einum tilræðisstaðanna í Írak í morgun. AP

Þrettán létu lífið og sautján særðust í sprengjutilræði í Bagdad, höfuðborg Íraks, í dag en ný ríkisstjórn Nouri al-Maliki kom saman til síns fyrsta fundar í morgun eftir að þing landsins lagði blessun sína yfir hana í gær. Þá létu að minnsta kosti 33 lífið í ofbeldisverkum í landinu í gær auk þess sem lík 22 manna, sem höfðu verið pyntaðir og teknir af lífi, fundust.

Þrettán létust er tilræðismaður sprengdi sjálfan sig í loft upp á veitingastað sem er sóttur af lögreglumönnum í borginni í dag en tilræðið var framið á háannatíma þegar veitingastaðurinn var þéttsetinn. Þá létu fjórir til viðbótar lífið er sprengjur sprungu í vegköntum og skotið var á bifreiðar fólks í Írak í morgun.

Maliki hefur sett sér það markmið að endurskipuleggja her- og lögreglusveitir landsins, fá uppreisnarmenn til að leggja niður vopn og draga úr ofbeldi og auka stöðugleika í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert