15 sagt upp hjá Nýherja og laun lækkuð

Sverrir Vilhelmsson

Nýherji hefur sagt upp fimmtán manns á Íslandi og verða laun allra starfsmanna félagsins og dótturfélaga hér á landi lækkuð um 10%. Laun starfsmanna með grunnlaun, sem eru undir 300 þúsund krónur á mánuði, haldast óbreytt.

Í tilkynningu kemur fram að launalækkunin taki gildi 1. febrúar 2009. Launalið í samningum starfsmanna verður sagt upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara. Laun forstjóra og framkvæmdastjóra lækka um 10% strax frá 1. nóvember.

Þá kann að verða rætt við einstaka starfsmenn um hvort þeir taki að sér hlutastarf til að mæta hugsanlegum samdrætti í þeirra verkefnum. 

Beitt verður ýtrasta aðhaldi í rekstri og dregið úr þróunarkostnaði og öðrum útgjöldum eins og kostur er, samkvæmt tilkynningu.

„Fjárhagsstaða Nýherja er traust og félagið hóflega skuldsett, en fyrirsjáanlegt er að sú erfiða staða sem er í íslensku efnahagslífi geti haft áhrif á tekjur og rekstur félagsins. Launakostnaður er nærri 80% af rekstrarkostnaði Nýherja og því nauðsynlegt að lækka þann kostnað. Við viljum grípa til aðgerða strax í ljósi aðstæðna,“ segir Þórður Sverrisson forstjóri Nýherja.

Félög Nýherja samstæðunnar eru 20 bæði hér heima og erlendis. Dótturfélögin hér á landi eru TM Software ehf., Applicon ehf., ParX ehf., Sense ehf., Linkur ehf., SimDex ehf., Klak ehf., Vigor ehf., Skyggnir ehf., Origo ehf. og eMR ehf. Um 720 starfa í allri samstæðunni, þar af eru um 550 hér á landi og 170 í dótturfélögum erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert