Tveir á yfir 200 km hraða

Tveir ökumenn mældust á yfir 200 km/klst á Eyrarbakkavegi, í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Lögreglan hafði hendur í hári annars ökumannsins sem var sviptur ökuréttindum á staðnum en hinum tókst að stinga lögregluna af.

Bifreiðirnar óku á um 200-212 km/klst. Ökumaðurinn sem slapp undan armi laganna var á svörtum fólksbíl og óskar lögreglan eftir því að vitni að ofsaakstrinum hafi samband í síma 480-1010.

Sá sem var gripinn glóðvolgur var karlmaður á fertugsaldri. Að sögn lögreglunnar keyrði hann það hratt að sektarreglugerðin nær ekki upp í hraðann svo ekki er hægt að segja til um hve háa sekt hann fær. Búast má við að maðurinn verði ákærður en málið fer til fulltrúa sýslumanns sem ákveður framhaldið.

Lögreglan sagðist heldur ekki geta sagt til um hve lengi maðurinn verður án ökuréttinda en lögum samkvæmt sviptir lögreglan engan ökuréttindum til bráðabirgða nema ljóst sé að við brotinu liggi a.m.k. 3 mánaða svipting.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert