Davíð sagður hafa gert aðför að forsetahjónunum

Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussiaeff
Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussiaeff mbl.is/Frikki

Staðhæft er í bókinni Saga af forseta, að auðveldlega megi túlka bréf, sem Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sendi Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, sem aðför að forsetahjónunum. Í bréfinu gerði Davíð athugasemdir við framkvæmd hjónavígslu Ólafs Ragnars og Dorrit Moussiaeff árið 2003.

Fram kemur í bókinni, sem Gunnar Friðriksson skráir, að nokkrum vikum eftir hjónavígsluna hafi Guðmundur Sophusson, sýslumaður sem gaf þau  Ólaf Ragnar og Dorrit saman, beðið Sigurð G. Guðjónsson, lögfræðing Ólafs Ragnars, um staðfestingu á því að hjónabandi Dorritar og fyrrum eiginmanns hennar, Neil Zarach, hafi verið lokið er hún giftist Ólafi.

Skömmu síðar hafi Hagstofan, sem á þeim tíma heyrði undir forsætisráðuneytið, tilkynnt Sigurði að ekki væri hægt að skrá Dorrit með lögheimili á Bessastöðum þar sem fullnægjandi gögn um skilnað hennar lægju ekki fyrir og að hún yrði því að sækja um landvistarleyfi á Íslandi.

Þá sendi Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra,  forsetanum bréf þar sem gerðar voru athugasemdir við hjónavígsluna. Sagði þar að formsatriðum hafi ekki verið fullnægt og að naumast þyrfti að árétta að allir ættu að vera jafnir fyrir lögunum. Málið væri hið vandræðalegasta og óheppilegt hvernig til hjónabandsins hafi verið stofnað.

Eftir að hafa lesið bréfið hringdi Ólafur, að sögn Sigurðar, í Davíð, sagði honum að sér þætti bréfið skrítið og útskýrði fyrir honum málavöxtu. Mun Davíð hafi sagst ætla að athuga málið og hafa samband aftur vegna þess en að það hafi hann aldrei gert.

Í bókinni segir að við athugun á tölvuskráningu í Bretlandi hafi komið í ljós að skilnaður Dorrit hafi verið skráður en ekki hafi verið skráð endanleg staðfesting hans sem skal fara fram ári síðar. Skömmu eftir samtal Ólafs og Davíðs hafi skilnaðarvottorð Dorritar hins vegar borist frá Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert