Erlendum fyrirspurnum um stangveiði fjölgar

Veiðimaður með lax úr Norðurá.
Veiðimaður með lax úr Norðurá. mbl.is/Golli

Fyrirspurnum erlendra stangveiðimanna um veiðimöguleika hér á landi næsta sumar hefur fjölgað umtalsvert á síðustu mánuðum. Þeir eru ekki síst að forvitnast um silungsveiði og spyrja hvort þeir geti ekki keypt leyfi í íslenskum krónum. Greinilegt er að margir þeirra bera saman verð og reyna að ná sem bestum kjörum. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur efndi til í dag, þar sem ný söluskrá félagsins var kynnt.

Guðmundur Stefán Maríasson, formaður SVFR, sagði að veiðileyfi félagsins hefðu lækkað um 20 - 30% að raunvirði frá 2007, en í langflestum tilvikum er verð óbreytt milli 2008 og næsta sumars. „Við tókum verðlagsmálin föstum tökum og lögðum áherslu á óbreytt verð á milli ára. Það var gert í góðri sátt við viðsemjendur og veiðiréttareigendur," sagðu Guðmundur Stefán. SVFR og viðsemjendur hafi tekið umtalsverðan skell við þetta, en árangrinum hafi verið náð. Samningum var breytt með viðauka um næsta sumar.

Undantekning er að Krossá hækkar lítillega og þá er fyrirvari gerður í verðskránni hvað varðar verð leyfa í Stóru-Laxá og Straumunum, þar sem enn hefur ekki verið samið um lækkun.

Landeigendur taka tillit til efnahagsástandsins

Guðmundur Stefán sagðist bjartsýnn á að félagar í SVFR myndu bregðast vel við og sækja um sín veiðileyfi. Þó væri raunhæft að búast við einhverjum samdrætti og að ekki yrði „100% sala á jafn mörg svæði og í fyrra."

Erindi frá SVFR liggur hjá landeigendum við Laxá í Mývatnssveit og Laxárdal, sem er nýjasta svæðið sem SVFR leigir, um að þeir taki einnig tillit til efnahagsástandsins og komi til móts við félagið með lækkun. Veiðileyfi á þessi svæði, þar sem eru um 2.200 stangardagar, fóru í forsölu í desember. Forsalan kom nokkuð vel út, að sögn Guðmundar. „Við áttum þó von á fleiri velunnurum svæðisins. Það verður því umtalsverð nýliðun í viðskiptamannahópi silungasvæðanna í Laxá í sumar."

Kynna SVFR á Akureyri

Þess má geta að stjórn SVFR kynnir starfsemi félagsins norðan heiða á föstudaginn, á fundi í Deigluni. Hefst hann klukkan 20.00 og er haldinn í samvinnu við Stangveiðifélag Akureyrar og Flúðir. Þá kom einnig fram að Bjarni Höskuldsson hefur verið ráðinn staðarhaldari við urriðasvæðin í Mývatnssveit og Laxárdal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert