Ástæðulaust að hafa vextina svona háa

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum kallað eftir því að vextirnir færu niður í eins stafs tölu og það hratt. Við höfum ekki talið neina ástæðu að hafa vextina svona háa,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurður um ákvörðun Seðlabankans um að lækka stýrivexti í 15,5%.

Vilhjálmur tekur það fram að það sé beinlínis skaðlegt að hafa vextina svona háa. „Það er verið að hækka reikninginn fyrir alla þessa erfiðleika okkar með því að fleiri fyrirtæki lenda í fjárhagslegum erfiðleikum. Færri fyrirtæki vilja fjárfesta og ráða fólk í vinnu,“ segir hann. 

Hann segir jafnframt að bankarnir séu í erfiðri stöðu. „Þeir sem geta tekið lán vilja það ekki og þeir sem vilja taka lán eru þeir sem bankarnir vilja helst ekki lána. Þannig að þetta rekur flóttann inn á atvinnuleysiskrána.“

„Ég held að þetta háa vaxtastig hafi lítið með það að gera,“ segir Vilhjálmur spurður út í áhrif stýrivaxta Seðlabankans á gengi krónunnar, sem hefur veikst mikið að undanförnu. „Gjaldeyrishöftin skapa svo mikla vantrú á krónunni. Á meðan að menn hafa ekki kraft í sér til að leysa þau mál þá verðum við alltaf í vandræðum með gengið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert