Til alvarlegrar skoðunar

Unnið að fornleifarannsóknum á Alþingisreitnum.
Unnið að fornleifarannsóknum á Alþingisreitnum.

„Við höfum brugðist við. Þegar Framkvæmdasýsla ríkisins vakti athygli okkar á málinu lögðumst við yfir það og í raun og veru má segja að þetta heyri ekki undir okkur,“ segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um málefni Fornleifastofnunar Íslands (FSÍ) sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær.

Talið er að FSÍ beiti siðferðilega og lagalega hæpnum aðferðum til að viðhalda markaðsráðandi aðstöðu á sviði fornleifauppgraftrar á landinu. „Þess vegna sendum við þetta bréf til Samkeppniseftirlitsins annars vegar og hins vegar til Háskóla Íslands og óskum eftir að kannað sé hvort þetta stangist á við starfsskyldur starfsmanna HÍ,“ segir Katrín og bætir við: „Þannig að við tökum á málinu og komum því áfram.“ Þannig sé vakin athygli viðeigandi stofnana á málinu. „Við mátum það þannig.“

Ákvörðun um málefni Adolfs Friðrikssonar og Orra Vésteinssonar segir Katrín að liggi hjá HÍ. Orri er dósent við HÍ og Adolf var til ársins 2007 stundakennari við skólann. Orri og Adolf eru stjórnarmenn í FSÍ og Adolf er auk þess forstöðumaður.

Háskóli Íslands sendi í gær frá sér yfirlýsingu um málið þar sem m.a. segir að það sé til „alvarlegrar skoðunar“. Þá segir: „Rétt er að taka fram að engin formleg tengsl eru á milli Háskóla Íslands og Fornleifastofnunar. Gögn Framkvæmdasýslunnar fela í sér ábendingar um að tilgreindir starfsmenn Háskólans kunni að hafa sýnt framkomu eða háttsemi sem ekki sé í samræmi við starfsskyldur þeirra sem kennara við skólann. Mál þetta er til alvarlegrar skoðunar innan skólans að því marki sem það lýtur að honum. Verið er að afla upplýsinga frá þeim starfsmönnum Háskólans sem nefndir eru í gögnum frá Framkvæmdasýslunni og rætt hefur verið við nemanda skólans sem nefndur er í gögnunum. Þegar athugun málsins er lokið verður gripið til viðeigandi aðgerða af hálfu Háskólans ef tilefni verður til.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir gagnaöflun standa yfir. Ekki er hægt að segja til um hvenær rannsókn lýkur. Málinu verður þó flýtt eins og kostur er.  
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert