Björgólfsfeðgar segja frétt Stöðvar 2 ranga

Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi stjórnarformaður Straums fjárfestingabanka, Björgólfur Guðmundsson og Karl Wernersson, fyrrverandi aðaleigandi Milestone, segja frétt Stöðvar 2 í gær ranga: Þeir segjast ekki hafa flutt fé frá Straumi í erlend skattaskjól sama dag og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis sl. október. Magnús Þorsteinsson var einnig nefndur í fréttinni en ekki náðist í hann.

„Það er lygi að ég hafi flutt peninga úr Straumi í skattaskjól í kringum hrunið. Það er af og frá. Bull!“ segir Björgólfur Thor í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Honum þykir grafalvarlegt þegar birtar eru rangar fréttir um mál sem þetta þegar andrúmsloftið í samfélaginu er „lævi blandið“.

Samson, eignarhaldsfélag Björgólfs Thors og föður hans Björgólfs Guðmundssonar, er nefnt í frétt Stöðvar 2. Björgólfur Thor segir aðeins eina peningafærslu að finna hjá Samson af reikningi hjá Straumi í október, þá var greitt af skuldabréfi í eigu lífeyrissjóða.

„Jú, auðvitað áttum við eitthvað af innistæðum [í Straumi],“ svarar hann og segist hafa átt í viðskiptum við alla bankana.

Karl segist ekki hafa átt krónu í innistæðum eða hlutabréfum hjá Straumi, hvað þá hafa fært innistæður í skattaskjól. Hann segir fréttina „bull og rugl“ og furðar sig á svona fréttamennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert