Gagnatorg veðurupplýsinga opnað

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, mun í dag opna nýtt vefsvæði sem hlotið hefur nafnið Gagnatorg veðurupplýsinga. Á Gagnatorginu má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar.

Fram kemur í tilkynningu, að þessar athuganir taki til meira en 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og nái í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði/Belgingur og DataMarket sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins. Notendur vefsins geta valið veðurstöðvar á korti eða flett þeim upp í lista, hakað við þær mælingar sem þeir hafa áhuga á að sjá og kallað þær fram fyrir valið tímabil. Gögnin má svo skoða hvort heldur er sem töflu eða á myndriti eða hala þeim niður til frekari úrvinnslu til dæmis í töflureikni á borð við Excel.

Gagnatorgið má nálgast á vefsvæði Reiknistofunnar, riv.is eða beint á slóðinni vedur.datamarket.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert