Fóru yfir og fjarlægðu farangur

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sprengjusveit Landhelgisgæslu Íslands var kölluð út á fimmta tímanum í dag vegna grunsamlegs farangurs í farþegaflugvél á leið til Detroit í Bandaríkjunum. Vélin sem var á leið frá Frankfurt lenti á Keflavíkurflugvelli um kl. 16.30 og áætlað var að hún færi aftur í loftið á sjötta tímanum.

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum var ekki vitað um eiganda að tösku um borð í vélinni og í ljósi aðstæðna, þ.e. að reynt var að sprengja í loft upp flugvél á leið til Detroit í gærkvöldi, tók flugstjórinn enga áhættu. Farið var yfir farangurinn og taska fjarlægð. Að því loknu var talið óhætt að halda ferðinni áfram.

Um borð voru um 200 farþegar og héldu þeir kyrru fyrir í sætum sínum á meðan aðgerðir fóru fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert