MMS-lausnin skaðleg öfugt við lýsingar

Svokölluð kraftaverkalausn, Miracle Mineral Solution, getur valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða. Lausnin hefur bæði verið til sölu í gegn um vefverslanir hérlendis sem og í heilsuvörubúð í miðborginni.

Í tilkynningu sem sóttvarnalæknir sendi út í morgun í samvinnu við Lyfjastofnun, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og eitrunarmiðstöð Landspítalans er varað við n notkun MMS lausnarinnar. Í henni sé 28% natríum klórít sem meiningin er að lækni fjölmarga sjúkdóma, allt frá alnæmi til berkla. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir hins vegar engan fót fyrir þeirri undraverkun lausnarinnar, heldur þvert á móti geti hún valdið margvíslegum sjúkdómum.

Ekki er vitað um veikindi hér á landi vegna inntöku lausnarinnar en hins vegar hafi borist upplýsingar um alvarleg veikindi erlendis sem rakin eru til hennar. Þau tilvik tengjast mörg börnum að sögn Haraldar og því full ástæða til að taka slíkar viðvaranir alvarlega.

MMS lausnina hefur m.a. verið hægt að kaupa hérlendis í gegn um vefverslanir auk þess sem fréttastofa mbl.is hefur fengið það staðfest að heilsuvöruverslun í miðborginni hafi hana til sölu. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun þarf ekki leyfi til að selja slíkar vörur séu þær ekki flokkaðar sem lyf en hverskonar fæðubótarefni séu hins vegar tilkynningarskyld og þannig geti stofnunin brugðist við sölu þeirra, sé talin ástæða til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert