Starfsmanni kirkjunnar vikið úr starfi vegna kynferðisbrots

Starfsmanni þjóðkirkjunnar var á síðasta ári vikið frá störfum vegna kynferðisbrots gegn barni. Málinu var vísað til barnaverndarnefndar, að því er kom fram í fréttum Sjónvarpsins.

Gunnar Rúnar Matthíasson, formaður fagráðs innan kirkjunnar, vildi í fréttum Sjónvarpsins ekki segja  hvort starfmaðurinn sé karl eða kona eða hvort hann hafi gegnt embætti prests. Gunnar Rúnar sagði, að ekki sé nóg gert til að koma í veg fyrir kynferðisbrot innan kirkjunnar. 

Kirkjuráð ætlar í september að eiga fund með Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, dóttur Ólafs Skúlasonar biskups en Guðrún Ebba hefur farið fram á það bréflega að kirkjan taki virkan þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.

Sigríður M. Jóhannsdóttir, fulltrúi í Kirkjuráði sagði í fréttum Útvarpsins í dag, að með því að herða reglur í fyrra hafi kirkjan í raun viðurkennt að ekki hafi verið staðið rétt að málum þegar Ólafur Skúlason og Gunnar Björnsson, þáverandi sóknarprestur á Selfossi, voru sakaðir um kynferðisbrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert