40 milljarða vegaframkvæmdir

Framkvæmdirnar munu vera mikil innspýting í hagkerfið að sögn Kristjáns …
Framkvæmdirnar munu vera mikil innspýting í hagkerfið að sögn Kristjáns Möller. Mynd úr safni. mbl.is/Helgi Bjarnason

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja í gang 40 milljarða kr. vegaframkvæmdir. Á næsta ári mun ríkissjóður afla heimilda í fjárlögum og bjóða út skuldabréfaflokk og lána til þeirra félaga sem munu koma að framkvæmdunum. Stefnt er að því að framkvæmdir muni hefjast á næstu vikum eða mánuðum.

Stjórnvöld hafa undanfarna níu mánuði átt í viðræðum, bæði formlegum og óformlegum, við lífeyrissjóðina um að koma að fjármögnun vegaframkvæmdanna, en upp úr þeim viðræðum hefur slitnað. Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi samgönguráðherra, stýrði þeim viðræðum fyrir hönd ríkisins.

Á meðan viðræðurnar við lífeyrissjóðina stóðu yfir var Vegagerðin fengin til að hefja undirbúningsvinnu fyrir framkvæmdirnar, s.s. hönnun og gerð útboðsgagna, að sögn Kristjáns.

„Nú erum við að minnsta kosti með fjögur verk sem geta komið til útboðs á næstu vikum og mánuðum.“

Vaðlaheiðargöng og framkvæmdir á suðvesturhorninu

Hann segir að skv. ákvörðun stjórnvalda muni útboð  nú fara í gang og að framkvæmdirnar verði unnar á næstu fjórum til fimm árum. Um er að ræða framkvæmdir á Suðurlandsvegi að Selfossi, Vesturlandsvegi að Hvalfjarðargöngum, Reykjanesbraut suður fyrir Straum og Vaðlaheiðargögn

Meðal þeirra verkefna sem fara í útboð á næstunni er framkvæmd á 15 km löngum kafla frá frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis og vonast Kristján að verkefnið geti farið í útboð í janúar eða febrúar nk.

Einnig má nefna framkvæmdir á tæplega tveggja km kafla á Suðurlandsvegi frá Smálöndunum að Bæjarhálsi. Kristján segir að það séu aðeins nokkrar vikur í útboð í þá framkvæmd.

Þá má nefna framkvæmdir á tæplega fjögurra km kafla á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi. Útboð geti mögulega hafist í janúar eða febrúar.

Loks er um að ræða gerð Vaðlaheiðarganga, sem eru átta km löng. Þar séu öll gögn tilbúin til forvals á Evrópska efnahagssvæðinu. Ferlið geti tekið allt að fimm mánuði. „Ég myndi segja að það væri ágætt takmark að byrja á Vaðlaheiðargöngum 17. júní nk,“ segir Kristján.

Mikil innspýting

Aðspurður segir hann þetta vera mikla innspýtingu í hagkerfið. Nú fari hjólin að snúast og nóg verði að gera hjá verktökum á næstu árum. Þúsundir ársverka muni nú skapast. Síðast en ekki síst þá sé þetta mikið umferðaröryggismál.

„Þarna erum við að tala um fjölförnustu vegi landsins, hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem verða þá 2+1 eða 2+2 eftir atvikum, þ.e. aðgreindar akstursstefnur. Þannig að þjóðhagslegur ávinningur við fækkun slysa verður mældur í milljörðum örugglega líka.“

Í maí sl. fór Kristján, þá samgönguráðherra, með frumvarp inn í þingið sem var samþykkt sem lög frá Alþingi 16. júní sl. sem heimila stjórnvöldum að stofna hlutafélag um framkvæmdirnar á suðvesturhorni landsins. Auk þess að blása lífi í félagið sem hyggst koma að gerð Vaðlaheiðarganga í samstarfi við sveitarfélögin. Í framhaldinu hófust formlegar viðræður við lífeyrissjóðina og þær hafa staðið síðan.

Vextirnir ásteytingarsteinninn

Að sögn Kristjáns náðu stjórnvöld og lífeyrissjóðirnir saman um allar meginforsendur verkefnisins fyrir um tveimur mánuðum, þ.e. varðandi kostnaðaráætlun, hvaða verkefni sé um að ræða, umferðarspá o.fl. Í kjölfarið hafi hafist umræður um vextina og segir Kristján að nær eingöngu hafi verið rætt um þá í tvo mánuði.

Þann 29. nóvember hafi stjórnvöld lagt fram tilboð sem lífeyrissjóðirnir höfnuðu í gær og lögðu þeir fram nýjar kröfur um vexti. Kristján segir að þær kröfur hafi verið algjörlega óviðunandi og viðræðunum því slitið í framhaldinu.

„Við vorum tilbúin að greiða ákveðið álag ofan á almenna skuldabréfavexti vegna verkefnisins. En við vildum hafa breytilegan vaxtagrunn sem miðaðist við tiltekna aðferð út frá skuldabréfaflokki 44 hjá Íbúðalánasjóði. Við vildum hafa þar ákveðinn grunn sem væri meðaltal síðustu 90 daga þegar lánið yrði tekið á komandi árum, því við tökum lánið næstu fjögur árin eftir framkvæmd verkanna. En þeir komu til baka og vildu alls ekki breytilega vexti heldur fasta vexti. Það vildum við ekki,“ segir Kristján og bætir við að stjórnvöld hafi bent lífeyrissjóðunum á að vextir fari lækkandi í landinu.

Kristján viðurkennir að hann hafi haft það lengi á tilfinningunni að vextirnir myndu vera ásteytingarsteinninn, þ.e. að lífeyrissjóðirnir vilji mun hærri vexti en ríkið sé reiðubúið til að borga. „Þess vegna höfum við lengi unnið að varaáætlun. Hún var lögð fyrir ríkisstjórn í morgun og samþykkt.“

Lífeyrissjóðirnir ekki komnir á jörðina

Kristján segist harma það að viðræður ríkisins og lífeyrissjóðanna hafi slitnað.

„Ég hefði viljað landa þessu á þann hátt eins og við vorum að gera. En ég tel að lífeyrissjóðirnir séu ekki alveg komnir niður á jörðina hvað varðar vaxtastigið í landinu. Þeir verða að átta sig á því að vextir fara hratt lækkandi og verðbólga er mjög lág. Við þurfum að gefa í gagnvart hagvexti og framkvæmdum og ég hef alltaf minnt þá á þeirra samfélagslegu ábyrgð, sem er mikil,“ segir Kristján og bendir á að sjóðirnir megi ekki vera til þess að halda uppi háum vöxtum í landinu og koma þannig í veg fyrir hagvöxt.

Kristján Möller harmar það að viðræður ríkisins og lífeyrissjóðanna hafi …
Kristján Möller harmar það að viðræður ríkisins og lífeyrissjóðanna hafi slitnað. mbl.is/G.Rúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert