Kolvitlaust veður í Berufirði

Úr Berufirði.
Úr Berufirði. Rax / Ragnar Axelsson

„Það var alveg kolvitlaust í nótt og snemma í morgun,“ sagði Björgvin Gunnarsson, bóndi á Núpi við Berufjörð. Helmingurinn af austurhlið hlöðu á bænum fauk af í óveðrinu. Hlaðan er áföst fjósi og fjárhúsi. Lokað er þar á milli svo ekki væsir um skepnurnar og ekkert hey skemmdist.

Björgvin sagði að veðrið hafi brostið á snemma í nótt og vöknuðu þau við veðurofsann. „Það var það hvasst í hviðum að tvöfalda glerið náði að glamra saman,“ sagði Björgvin. „Það er alveg kolvitlaust í þessari vindátt.“

Bærinn stendur neðan við dal og kemur norðanstrengurinn beint þar niður og skellur á bænum. Björgvin hafði ekki heyrt af að veðrið hafi valdið skemmdum á öðrum bæjum.

Björgvin sagði að norðanáttin væri oft hörð á Núpi og byljótt. Veðrið var farið að ganga niður eftir hádegið en samt svo slæmt að ekki var hægt að eiga við viðgerð á hlöðunni. Byrjað verður á viðgerðinni í fyrramálið.  Járnið fauk að mestu á haf út en nokkrar plötur björguðust þó. „Við höfum séð það svartara,“ sagði Björgvin.

Heyrúllur eru geymdar utanhúss og teknar inn til daglegra þarfa og opnaðar jafnóðum. Engin hey voru því í hættu þótt hliðin færi af hlöðunni að hálfu leyti. 

Veðurstöð Vegagerðarinnar á Streiti, sem er nokkra kílómetra fyrir austan Núp í Berufirði, sýndi allt að 38 m/s vindhviður í morgun. Það jafnast þó ekki við 69 m/s vindhviðu sem mældist í Hamarsfirði, nokkuð sunnan við Berufjörð.

Núpur er austasti bær í byggð í Berufirði. Þar er stórbýli, rúmlega 70 mjólkandi kýr og hátt í 400 fjár. Þau ala alla kálfa og eru með á þriðja hundrað nautgripi alls.  

Vindhviðurnar á Streiti, nokkra km austan við Núp, slógu í …
Vindhviðurnar á Streiti, nokkra km austan við Núp, slógu í tæpa 40 m/s. www.vegagerdin.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert